Home / Fréttir / Stoltenberg boðar fjölgun í hraðliði NATO úr 40.000 í 300.000 manns

Stoltenberg boðar fjölgun í hraðliði NATO úr 40.000 í 300.000 manns

Jens Stoltenberg á blaðamannafundi um Madrid-ríkisoddvitafund NATO.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á blaðamannafundi í Brussel mánudaginn 27. júní vegna ríkisoddvitafundar NATO í Madrid 28. og 29. júní að fjölgað yrði í hraðliði bandalagsþjóðanna úr 40.000 manns í 300.000.

Hann sagði að tekin yrði afstaða til umsóknar Finna og Svía um aðild að NATO í Madrid. Hann hefði rætt við Erdogan Tyrklandsforseta laugardaginn 25. júní og mundi síðar mánudaginn 27. júní ræða við Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.

Hann fagnaði því að Erdogan, Niinistö Finnlandsforseti og Andersson forsætisráðherra hefðu samþykkt boð sitt um sameiginlegan fund í Madrid 28. júní en háttsettir embættismenn ríkjanna þriggja ræddu saman í Brussel 27. júní.

Í svörum við spurningum blaðamanna sagðist hann ekki geta sagt neitt annað um niðurstöðu fundanna um aðild Finna og Svía en að þeir bæru árangur í samræmi við áherslu sína á að leysa málið á farsælan hátt.

Þá benti hann á að sá sögulegi atburður yrði á Madrid-fundinum að þangað kæmu í fyrsta sinn þátttakendur frá Ástralíu, Japan, Nýja-Sjálandi og Suður-Kóreu.

Áhersla verður lögð á að efla herafla undir merkjum NATO í austurhluta Evrópu. Átta orrustusveitir hafa verið myndaðar og hafa þær aðsetur í Litháen, Eistlandi, Lettlandi, Póllandi, Rúmeníu, Ungverjalandi, Slóvakíu og Búlgaríu. Þessar sveitir verða styrktar með nýjum liðsafla og þungavopnum.

Stoltenberg sagði að bandalagsþjóðirnar mundu samþykkja á fundi sínum í Madrid að veita Úkraínumönnum meiri hernaðaraðstoð. Þar á meðal yrði öruggur fjarskiptabúnaður og varnarkerfi gegn drónum.

Til langs tíma væri það markmið bandalagsþjóðanna að gera Úkraínumönnum kleift að eignast nútímavopn að hætti NATO-ríkjanna og losa sig við úrelt hergögn frá Sovéttímanum.

Í grunnstefnu NATO frá 2010 er talað um Rússa sem „strategíska samstarfsmenn“. Í Madrid verður samþykkt ný grunnstefna með allt öðru orðalagi.

Sagðist Stoltenberg búast við því að í ályktun Madrid-fundarins kæmi skýrt fram að Rússar ógnuðu öryggi bandalagsþjóðanna, gildum þeirra og skipan alþjóðamála sem reist væri á lögum og reglum.

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …