Home / Fréttir / Stoltenberg boðar allt að átta NATO-herstöðvum í austurhluta Evrópu

Stoltenberg boðar allt að átta NATO-herstöðvum í austurhluta Evrópu

 

Barack Obamao
Barack Obama og Jens Stoltenberg heilsast í Hvíta húsinu.

 

NATO ætlar að efla sameiginlegar varnir með því að koma á fót allt að átta stjórnstöðvum í austurhluta Evrópu sagði Jens Stolteberg, framkvæmdastjóri NATO, á blaðamannafundi í Washington miðvikudaginn 27. maí.

Framkvæmdastjórinn sagði að stjórnstöðvarnar yrðu í Eistlandi, Lettlandi Litháen, Póllandi, Búlgaríu og Rúmeníu. Ein í hverju landi og hugsanlega tvær í tveimur öðrum löndum.

Stoltenberg sagði að á fundi sínum með Barack Obama Bandaríkjaforseta þriðjudaginn 26. maí hefðu þeir rætt „mikilvægi þess að efla sameiginlegar varnir okkar“ í samræmi við niðurstöðu leiðtogafundar NATO í Wales í september 2014.

Þá sagði Stoltenberg að undir merkjum NATO væri nú þegar unnið að því að auka viðbúnað til varnar löndum í næsta nágrenni við Rússland. Þar hefði eftirlit í lofti verið aukið, heræfingum fjölgað auk þess sem herskip fari tíðar um Svartahaf og Eystrasalt en áður.

Stoltenberg svaraði ekki spurningu blaðamanns um hvort hann hefði rætt við forsetann um að herafli undir merkjum NATO hefði fast aðsetur í austurhluta Evrópu.

Fundur Stoltenbergs með Obama var fyrsti einkafundur þeirra í Hvíta húsinu síðan Stoltenberg varð framkvæmdastjóri NATO í október 2014.

 

Skoða einnig

Sameinaður norrænn flugherafli að fæðast

Norrænu ríkin fjögur, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa ákveðið að dýpka samstarf flugherja sinna. …