
Spenna í samskiptum stjórnvalda Eistlands og Rússlands hefur meðal annars magnast undanfarið vegna þess að Rússar dæmdu eistneskan landamæravörð sem þeir rændu fyrir njósnir. Honum hefur nú verið sleppt frá Rússlandi í skiptum fyrir Rússa sem sat í fangelsi í Eistlandi, dæmdur fyrir njósnir.
Eston Kohver, eistneski landamæravörðurinn, er nú kominn til síns heima í skiptum fyrir rússneska njósnarann Aleksei Dressen. Þetta lá fyrir staðfest af Hanno Pevkur, innanríkisráðherra Eistlands, laugardaginn 26. september. Fangaskiptin fóru fram við landamæri ríkjanna í suðausturhluta Eistlands.
Tveimur landamærastöðvum var lokað á meðan farið var með mennina yfir brú á Piusa-ánni sem skilur á milli ríkjanna.
Mark Feigin, lögfræðingur Kohvers, bendir á að fangaskiptin verði skömmu áður en Vladimír Pútín Rússlandsforseti flytur ræðu á þingi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í New York mánudaginn 28. september. Þau séu liður í að bæta ímynd forsetans en hann og rússnesk stjórnvöld hafa sætt mikilli gagnrýni fyrir handtökuna eða ránið á Kohver sem sat 13 mánuði í rússnesku fangelsi.
Lögfræðingurinn segir að stjórnmálamenn hafi komið að ákvörðunum um örlög Kohvers: „Þetta gerist allt í aðdraganga ferðar Pútíns til SÞ. Það er eina ástæðan.“
Hinn 19. ágúst var Kohver dæmdur í 15 ára fangelsi í Rússlandi – dómurinn féll í lokuðu réttarhaldi og snerist um að hann hefði farið ólöglega inn í Rússland og stundað njósnir. Eistlendingar segja að honum hafi verið rænt fyrir ári og dreginn nauðugur yfir landamærin inn í Rússland.
Hinn 10. september samþykktu ESB-þingmenn áskorun á Rússa að sleppa Kohver og einnig úkraínska kvikmyndagerðarmanninum Oleg Sentsov og aðgerðasinnanum Oleksandr Kolsjenkó. Sagði í samþykktinni að fangelsun þessara manna væri „forkastanlegt brot gegn landsyfirráðarétti Úkraínu og Eislands enda rán á borgurum beggja landa“.
Dressen hafði starfað lengi í eistnesku öryggislögreglunni þegar hann var handtekinn í febrúar 2012 grunaður um njósnir fyrir Rússa. Hann var fundinn sekur um að hafa árum saman laumað trúnaðarskjölum til Rússa eftir sjálfstæði Eistlands árið 1991. Hlaut hann 16 ára dóm fyrir landráð.
Taavi Roivas, forsætisráðherra Eistalands, sem varð 36 ára laugardaginn 26. september sagði fréttirnar úr innanríkisráðuneytinu bestu afmælisgjöf sem hann hefði getað fengið.
Heimild: RFE/RL