
Nýjasti kjarnorkuknúni ísbrjótur Rússa, Arktika, varð að hætta við jómfrúarferð sína á miðju Barentshafi og sigla að nýju til heimahafnar. Ísbrjóturinn lét úr þjónustuhöfn Atomflot við Kólaflóa, skammt frá Múrmansk, laugardaginn 14. nóvember. Þar með hófst fyrsta ferð hans til þjónustu á Norðurleiðinni, það er í Norður-Íshafi fyrir norðan Rússland.
Rekstrarfélag rússnesku kjarnorkuknúnu ísbrjótanna, Rosatomflot, sendi frá sér fréttatilkynningu mánudaginn 16. nóvember þar sem sagði:
„Fjölhæfa forystuskipið, kjarnorkuknúni ísbrjóturinn Arktika lagði 14. nóvember úr höfn í Múrmansk í jómfrúarferð sína. Skipið stefndi í átt að Karahafi. Fram undir miðjan desember verður kjarnorkuknúni ísbrjóturinn Arktika við störf á Norðurleiðinni.“
Stjórnstöð Norðurleiðarinnar veitti Arktika heimild til að sigla um Karahlið, þar sem er upphaf Norðurleiðarinnar, frá og með 16. nóvember.
Á norsku vefsíðunni Barents Observer, segir hins vegar frá því þriðjudaginn 17. nóvember að þegar skipið hafi verið hálfnað á leið sinni norðaustur Barentshaf hafi því skyndilega verið snúið um 180° og siglt stutta leið í norðvestur áður en það tók stefnu þriðjudaginn 17. nóvember í suður beint til Múrmansk.
Barents Observer sneri sér til upplýsingadeildar Atomflot og spurði hvers vegna skipinu hefði verið snúið svo skyndilega og hratt til heimahafnar að nýju. Evgeníj Sviridov varð fyrir svörum og sagði: „Áhöfnin vinnur að lagfæringum um borð.“ Án frekari skýringa bætti hann við: „Ísbrjóturinn heldur af stað frá Múrmansk í nánustu framtíð.“
Á norsku vefsíðunni segir að á staðar-vefsíðunni Vkontakte í Múrmansk megi nú þegar sjá vangaveltur um hvað kunni að hafa farið úrskeiðis. Óstaðfestar heimildir eru um „vélarbilun“ um borð þó ekki neitt í tengslum við kjarnakljúfana tvo sem knýja skipið.
Arktika er forystuskipið í 22220-verkefninu sem nær yfir smíði fimm öflugustu kjarnorku-ísbrjóta heims. Nú er unnið að smíði tveggja slíkra skipa í St. Pétursborg, Ural og Sibir. Kjölur var lagður að fjórða ísbrjótnum, Jakúta, í maí 2020 og skrifað hefur verið undir samning um þann fimmta, Stjúotka.
Barents Observeri segir að þegar Arktika sigldi frá St. Pétursborg 22. september 2020 hafi verið ljóst að ein af þremur rafmagnsvélum skipsins starfaði ekki sem skyldi, þar með fengi drif skipsins á stjórnborða ekki fulla orku. Þessi bilun kom í ljós við reynslusiglingar á Eystrasalti og við hana verður ekki gert nema skipinu sé siglt aftur til skipasmíðastöðvarinnar í St. Pétursborg. Sérfræðingar segja að aldrei hefði átt að sigla skipinu í norðurhöf án þess að taka upp þessa rafmagnsvél og gera við hana.