Home / Fréttir / Stjórnir Þýskalands og Tyrklands vilja meiri aðild NATO til að leysa flóttamannavandann

Stjórnir Þýskalands og Tyrklands vilja meiri aðild NATO til að leysa flóttamannavandann

Angela Merkel og Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands,
Angela Merkel og Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands,

Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, sagði mánudaginn 8. febrúar eftir fund með Angelu Merkel Þýskalandskanslara í Ankara að stjórnir Tyrklands og Þýskalands mundu „taka höndum saman“ í því skyni að knýja fram meiri þátttöku NATO við stjórn á flóttamannastraumnum frá Sýrlandi. Leitað yrði eftir meira eftirliti af hálfu NATO á landamærum Tyrklands og Sýrlands og á Eyjahafi milli Tyrklands og Grikklands.

Tyrkir standa nú frammi fyrir nýrri bylgju flóttamanna frá Sýrlandi eftir árásir hers Bashara al-Assads Sýrlandsforseta og rússneska flughersins á borgina Aleppo. Undanfarna sólarhringa hafa 30.000 til 70.000 manns flúið borgina í átt að tyrknesku landamærunum.

Á blaðamannafundi mánudaginn 8. febrúar sagði Davutoglu að Tyrkir mundu opna landamæri sín þegar það yrði „nauðsynlegt“.  Hann sagði með öllu óþolandi að Rússar vörpuðu sprengjum á Aleppo og síðan ættu Tyrkir að sitja uppi með fólkið sem reyndi að bjarga sér undan þeim.

Merkel sagði að hún væri ekki aðeins furðu lostin vegna ástandsins í Aleppo heldur hryllti sig við þeim harmleik tug þúsunda manna sem mætti rekja til sprengjuárásanna „einkum af hálfu Rússa“.

Davutoglu að í raun væri setið um Aleppo og þar blasti við upphaf „nýs mannlegs harmleiks“.

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …