
Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, sagði mánudaginn 8. febrúar eftir fund með Angelu Merkel Þýskalandskanslara í Ankara að stjórnir Tyrklands og Þýskalands mundu „taka höndum saman“ í því skyni að knýja fram meiri þátttöku NATO við stjórn á flóttamannastraumnum frá Sýrlandi. Leitað yrði eftir meira eftirliti af hálfu NATO á landamærum Tyrklands og Sýrlands og á Eyjahafi milli Tyrklands og Grikklands.
Tyrkir standa nú frammi fyrir nýrri bylgju flóttamanna frá Sýrlandi eftir árásir hers Bashara al-Assads Sýrlandsforseta og rússneska flughersins á borgina Aleppo. Undanfarna sólarhringa hafa 30.000 til 70.000 manns flúið borgina í átt að tyrknesku landamærunum.
Á blaðamannafundi mánudaginn 8. febrúar sagði Davutoglu að Tyrkir mundu opna landamæri sín þegar það yrði „nauðsynlegt“. Hann sagði með öllu óþolandi að Rússar vörpuðu sprengjum á Aleppo og síðan ættu Tyrkir að sitja uppi með fólkið sem reyndi að bjarga sér undan þeim.
Merkel sagði að hún væri ekki aðeins furðu lostin vegna ástandsins í Aleppo heldur hryllti sig við þeim harmleik tug þúsunda manna sem mætti rekja til sprengjuárásanna „einkum af hálfu Rússa“.
Davutoglu að í raun væri setið um Aleppo og þar blasti við upphaf „nýs mannlegs harmleiks“.