Home / Fréttir / Stjórnarskipti í Svíþjóð

Stjórnarskipti í Svíþjóð

Magdalena Andersson tilkynnir að hún ætli að biðjast lausnar sem forsætisráðherra Svíþjóðar.

„Þetta er lítill meirihluti, en þetta er meirihluti, þess vegna mun ég biðjast lausnar sem forsætisráðherra á morgun [15. september] og afsala mér ábyrgð á framhaldinu til forseta þingsins,“ sagði Magdalena Andersson, fráfarandi forsætisráðherra Svía, á blaðamannafundi að kvöldi miðvikudags 14. september.

„Þetta verður erfitt og flókið kjörtímabil,“ sagði hún. „Ríkisstjórnin sem tekur við stjórn Svíþjóðar tekur hins vegar við góðu búi.“

Hún rakti síðan það sem flokkur hennar hefði áorkað í stjórnarforystu sinni og fylgi hans hefði aukist í kosningunum núna.

„Við sósíal-demókratar háðum öfluga kosningabaráttu og fengun góð úrslit. Sósíal-demókratar eru ekki aðeins stærsti flokkur Svíþjóðar heldur stærsti flokkurinn í Norður-Evrópu,“ sagði hún.

Þegar enn var ótalið í 20 kjördæmum höfðu flokkarnir fjórir sem styðja mið-hægrimanninn Ulf Kristersson sem forsætisráðherra fengið 176 þingmenn en flokkarnir fjórir sem styðja Andersson eru með 173 þingmenn. Við talningu á utankjörstaðaratkvæðum miðvikudaginn 14. september misstu sósíal-demókratar eitt þingsæti til Moderatarna, flokks Kristerssons.

Andersson verður forsætisráðherra í starfsstjórn þar til Ulf Kristersson fær stuðning meirihluta þingmanna til að mynda stjórn. Andersson ætlar að leiða flokk sinn í stjórnarandstöðu.

Á myndbandi á Facebook sagði Ulf Kristersson að hann hefði hafið myndun nýrrar kröftugrar ríkisstjórnar.

Svíþjóðardemókratar unnu mest á í kosningunum og bættu stöðu sína verulega á þingi. Jimmie Åkesson, fornaður flokksins, sagði á Facebook að nú hæfist vinna við að gera „Svíþjóð gott land að nýju“. Kjósendur hefðu varpað mikilli ábyrgð á flokk hans og við henni yrði brugðist af alúð og „dýpstu virðingu“.

Hann sagði að nú yrði bundinn endi á misheppnaða stjórn sósíal-demókrata sem hefðu leitt þjóðina í átta ár til rangrar áttar. Það væri tímabært að tryggja almenningi öryggi að nýju, hagsæld og einhug. Það væri tímabært að setja Svíþjóð í fyrsta sæti. Svíþjóðardemókratar myndu leggja mikið af mörkum til endurreisnarstarfsins.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …