
Petteri Orpo, formaður mið-hægri Samlingspartiet í Finnlandi, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, lýsti flokk sinn sigurvegara þingkosninganna í landinu að kvöldi sunnudagsins 2. apríl.
Samlingspartiet fær 20,8% atkvæða og 48 þingmenn og fjölgar þeim um 10 frá kosningunum 2019. Þjóðernissinnaði Finnaflokkurinn fær 20% atkvæða 46 þingmenn, sjö þingmönnum fleiri en 2019.
Jafnaðarmannaflokkurinn, SDP, flokkur Sönnu Marin forsætisráðherra er þriðji stærsti flokkurinn með 19,9% atkvæða og 43 þingmenn, fjölgar um þrjá.
Samstarfsflokkar jafnaðarmanna í ríkisstjórn Sönnu Marin tapa fylgi, það er Miðflokkurinn, Græningjar og Vinstra bandalagið.
Það kemur nú í hlut Orpos að mynda ríkisstjórn og fá stuðning meirihluta í 200 manna þinginu við hana. Fyrsta verk hans verður væntanlega að velja sér stóran samstarfsflokk, annaðhvort Finnaflokkinn eða Jafnaðarmannaflokkinn.
Það verður erfitt fyrir Orpo og Marin að ná saman um efnahagsstefnu. Nokkur samhljómur er milli Samlingspartiet og Finnaflokksins um nauðsynlegar efnahagsaðgerðir en flokkana greinir á um ESB-aðildina, útlendingamál og loftslagsmál.
Samvinna Samlingspartiet og Jafnaðarmannaflokksins er gamalkunnur kostur í finnskum stjórnmálum en samtals ráða flokkarnir 91 þingmanni. Þá störfuðu Samlingspartiet og Finnaflokkurinn saman í ríkisstjórn 2015 til 2019 og nú hafa þeir samtals 94 þingmenn. Með stuðningi Sænska þjóðarflokksins sem hélt sínum 9 þingmönnum geta þeir myndað borgaralega ríkisstjórn í Finnlandi.