Home / Fréttir / Stjórnarskipti í Danmörku að loknum þingkosningum

Stjórnarskipti í Danmörku að loknum þingkosningum

 

Mette Frderiksen, formaður danskra jafnaðarmanna, fagnar að kvöldi kjördags.
Mette Frderiksen, formaður danskra jafnaðarmanna, fagnar að kvöldi kjördags.

Mette Frederiksen, leiðtogi danskra jafnaðarmanna, verður að öllum líkindum næsti forsætisráðherra Danmerkur. Úrslit þingkosninganna í gær (5. júní) skiluðu „rauðu blokkinni“ 91 þingsæti. Í „blokkinni“ eru Jafnaðarmannaflokkurinn, Róttæki vinstri flokkurinn (Radikale Venstre), Sósíalíski þjóðarflokkurinn (SF) og Einingarlistinn (Enhedslisten).

Það var þó ekki Jafnaðarmannaflokkurinn sem dró að sér fylgisaukningu í kosningunum, hann tapaði 0,4% og fékk 25,9% atkvæða en bætti þó við sig einu þingsæti úr 47 í 48.

Tveir samstarfsflokkar Jafnaðarmanna bættu mjög stöðu sína: Radikale Venstre tvöfaldaði fylgi sitt í 8,6% og fékk 16 þingmenn. Þá fjölgaði þingmönnum SF úr 7 í 14 og Einingarflokkurinn 13.

Stjórnmálaskýrandi Jyllands-Posten telur að í viðræðum „rauðu“ flokkana um stjórn reyni meðal annars á hvort samstaða náist um útlendingamálin. Mette Frederiksen hét því í kosningabaráttunni að slá ekki af útlendingastefnu flokksins. Það er einmitt krafa hinna rauðu flokkanna að hún geri það.

Í ræðu sem Frederiksen flutti þegar úrslitin lágu fyrir sagði hún að hvað sem fylgi einstakra flokka liði yrðu þeir allir að virða vilja meirihluta þingmanna og mikill meirihluti þeirra styddi núverandi útlendingastefnu Danmerkur. Það bæri að virða.

Eftir þingkosningarnar 2015 var talað um „gulu Danmörku“ vegna þess hve Danski þjóðarflokkurinn (DF) vann mikinn sigur. DF hefur aldrei átt ráðherra í ríkisstjórn en jafnan verið hluti „bláu blokkarinnar“. Nú fékk DF mjög slæma útreið. Árið 2015 varð DF næststærsti flokkur landsins með 21,1% atkvæða, nú fjórum árum síðar fékk DF aðeins 8,7% atkvæða og tapaði meira en helmingi þingmanna, þeim fækkaði úr 37 í 16.

Þótt Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre-flokksins (mið-hægri) hafi nú beðist lausnar sem forsætisráðherra vegnaði honum og flokki hans vel í kosningunum. Þingmönnum flokksins fjölgaði um níu. Fjölgaði þingmönnum flokksins meira en nokkurs annars flokks. Þetta var Lars Løkke sérstakt fagnaðarefni að kvöldi kjördags og einnig að nú væri Venstre á ný stærsti, frjálslyndi, borgaraleg flokkur landsins.

Hann sagðist ætla að leggja til við drottninguna um leið og hann bæðist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt að sér yrði falið að mynda nýja stjórn sem brúaði miðjuna í dönskum stjórnmálum. Í kosningabaráttunni lagði hann áherslu á að jafnaðarmenn og Venstre tækju höndum saman að kosningum loknum.

Íhaldsflokkurinn tvöfaldaði þingmannafjölda sinn úr 6 í 12 þingmenn. Frjálslynda bandalagið (Liberal Alliance) var rétt yfir þeim mörkum að ná mönnum yfir 2% þröskuldinn, fékk 2,3% – tapaði 5,2 stigum og níu þingmönnum, einn þeirra var Anders Samuelsen, flokksformaður og utanríkisráðherra.

Flokkurinn Nye Borgerlige fékk 2,4% og fjóra þingmenn.

Klaus Riskær Pedersen-flokkurinn fékk aðeins 0,8% og hefur flokkurinn hætt störfum.

Kristilegir demókratar fengu 1,7%.

Flokkurinn Hörð stefna (Stram Kurs) sem Rasmus Paludan stofnaði til höfuðs múslimum fékk 1,8% atkvæða.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …