Home / Fréttir / Stjórnarkreppa á Ítalíu að frumkvæði Salvinis

Stjórnarkreppa á Ítalíu að frumkvæði Salvinis

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, boðar afsögn sína. Við hlið hans situr Matteo Salvini sem sprengdi stjórnarsamstarfið.
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, boðar afsögn sína. Við hlið hans situr Matteo Salvini sem sprengdi stjórnarsamstarfið.

 

Forsætisráðherra Ítalíu Giuseppe Conte sagði af sér þriðjudaginn 20. ágúst og ríkir stjórnarkreppa í landinu. Afsögn forsætisráðherrans, sem er utan flokka, má rekja til ágreinings milli uppnámsflokkanna sem myndað hafa meirihluta á ítalska þinginu, Fimm-stjörnu-hreyfingarinnar (til vinstri) og Bandalagsins (til hægri).

Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, kallar forystumenn stjórnmálaflokka landsins til viðræðna og leggur mat á hvort unnt sé að mynda starfhæfa stjórn eða hvort rjúfa verður þing og boða til kosninga.

Í afsagnarræðu sinni í öldungadeild ítalska þingsins sakaði Conte leiðtoga Bandalagsins, Matteo Salvini, innanríkisráðherra, um að meta eigin hag og flokks síns meira en hag Ítalíu. Salvini hafði sagt tíma ríkisstjórnarinnar á enda. Conte sagði þá alvarlegu yfirlýsingu draga dilk á eftir sér fyrir efnahag og þjóðlíf Ítala.

„Þegar stjórnmálaafl lætur von um góðan árangur í kosningum aðeins ráða för skaðar það þjóðarhagsmuni,“ sagði Conte og sakaði Salvini um að skorta skilning á stofnunum ríkisins og starfsemi þeirra. Þetta birtist meðal annars í því að flokkur hans lýsi vantrausti á ríkisstjórnina án þess að draga ráðherra sína út úr henni.

Salvini svaraði Conte fullum hálsi og sagðist hiklaust mundu endurtaka allt sem hann hefði gert í krafti þess að vera frjáls maður sem óttaðist ekki dóm Ítala. „Þeir sem óttast dóm Ítala eru ekki frjálsir,“ sagði Salvini. „Það er salt lýðræðisins.“

Salvini veittist einnig að samstarfsflokki sínum, Fimm-stjörnu-hreyfingunni, og sakaði forystumenn flokksins um að leggja á launráð gegn sér svo að þeir gætu myndað stjórn með Lýðræðisflokknum.

Salvini sagði stjórnarsamstarfinu lokið vegna framgöngu forystumanna samstarfsflokksins sem einkenndist af orðunum: „Nei, þetta getum við ekki“ sama hvaða mál væri til umræðu.

Silvia Sciorilla Borrelli, fréttaritari Politico, í Róm sagði við Euronews að fimm sviðsmyndir kæmu nú til greina:

  1. Ursulu-ríkisstjórn

Nefnd eftir Ursulu von der Leyen, verðandi forseta framkvæmdastjórnar ESB. Þetta yrði miðjustjórn með Romano Prodi sem forsætisráðherra og með stuðningi Lýðræðisflokksins, Forza Italía og Fimm-stjörnu-hreyfingarinnar ­– það er flokkunum sem tryggðu Ursulu von der Leyen kjör á ESB-þinginu. Þetta kynni að auka fylgi Bandalagsins í stjórnarandstöðu.

  1. Rauðgul ríkisstjórn

Lýðræðisflokkurinn og Fimm-stjörnu-hreyfingin (með stuðningi frá Mattaeo Renzi, fyrrv. forsætisráðherra sem hyggur á endurkomu). Hugsanlega yrði Conte forsætisráðherra eða forseti fulltrúadeildar þingsins, Roberto Fico, úr Fimm-stjörnu-hreyfingunni.-

  1. Þjóðstjórn undir forsæti Ficos eða ElisabettuCasellati, forseta öldungadeildarinnar.
  2. Utanþingsstjórn.
  3. Þingrof og kosningar njóti enginn kostanna hér fyrir ofan stuðnings meirihluta þingmanna.

Borrelli útilokar ekki að Salvini tapi mestu á þessu brölti að lokum. Ítalir hafi aldrei kynnst því að sumarið sé notað til slíkra pólitískra átaka og í 100 ár hafi engum dottið í huga að rjúfa þá þing og boða til kosninga á þessum tíma. Þá sé ólíklegt að Sergio Mattarella forseti geri það á sama tíma og ítölsk stjórnvöld ræða viðkvæma fjárhagsstöðu ítalska ríkisins við fulltrúa ESB í Brussel.

Líklegt er að mati Borrellis að Fimm-stjörnu-hreyfingin og Lýðræðisflokkurinn taki höndum saman og í stað að Matteo Salvini verði forsætisráðherra sitji hann utan stjórnar.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …