Home / Fréttir / Stjórnar ný-nasistum í Bandaríkjunum frá St. Pétursborg

Stjórnar ný-nasistum í Bandaríkjunum frá St. Pétursborg

Rinaldo Nazzaro í bolnum til heiðurs Pútín.
Rinaldo Nazzaro í bolnum til heiðurs Pútín.

Rannsóknarfréttamenn breska ríkisútvarpsins BBC segja að bandarískur stofnandi hóps ný-nasista, The Base, stjórni aðgerðum hans frá Rússlandi. Um sé að ræða Rinaldo Nazzaro (46 ára) sem noti dulefni eins og Norman Spear (spjót normanna) og Roman Wolf (rómverskur úlfur) sem fór frá New York til St. Pétursborgar fyrir tæpum tveimur árum.

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) lítur á The Base sem hryðjuverkasamtök. Fyrir skömmu voru kærur um ýmis brot lögð fram á hendur sjö mönnum sem taldir eru í hópnum, þar á meðal morðsamsæri.

Í rannsóknargögnum sem FBI hefur kynnt segir að The Base séu samtök „ofbeldisfullra manna sem boði kynþáttaöfgar“ og þeir „ætla að flýta fyrir að ríkisstjórn Bandaríkjanna falli, hvetja til kynþáttastríðs, og stofna hvítt þjóðarríki“.

Hópurinn var stofnaður í júlí 2018 og aflar sér félaga á netinu, notar dulkóðun í samskiptum sínum en félagsmenn eru hvattir til að stunda þjálfun að hætti hermanna.

Í fyrra var Nazzaro skráður sem gestur á sýningu rússneskra stjórnvalda í Moskvu á öryggisbúnaði. Í mars 2019 var myndskeið sett á netið þar sem Nazzaro er í Rússlandi, klæddur bol með mynd af Vladimír Pútín Rússlandsforseta með áletruninni: Rússland, algjört vald.

Í frétt BBC laugardaginn 25. janúar segir að fréttamenn hafi rakið búsetu Nazzaro og rússneska konu hans í gott hverfi í miðborg St. Pétursborgar í íbúð sem konan keypti undir sínu nafni í júlí 2018 – í sama mánuði og FBI telur að hópurinn The Base hafi verið stofnaður.

Gögn sýna að áður en Nazzaro flutti til Rússlands rak hann fyrirtæki, skráð í New York, sem bauð viðskiptavinum þjónustu „samstarfsnets sérfræðinga í öryggisvörslu“ með sérþekkingu á sviði leynilegrar upplýsingaöflunar, gagn-hryðjuverkastarfsemi, gagn-óeirðaaðgerða og sálfræðilegra aðgerða.

Á vefsíðu fyrirtækisins – Omega Solutions – sagði á sínum tíma: „Starfsmenn okkar hafa starfað með stjórnvöldum ýmissa landa og hernaðarstofnunum, þar á meðal oft komið að hernaðarlegum aðgerðum í Írak og Afganistnan.“

BBC segir að þegar rannsóknarfréttamenn útvarpsstöðvarinnar heimsóttu heimilisfangið sem fyrirtækið kynnti á sínum tíma í New York hafi þar ekki verið annað að finna en póstkssa þótt opinberlega starfi fyrirtækið enn og tryggingar þess séu skráðar í gildi.

Árið 2012 kvæntist Nazzaro rússneskri konu á Manhattan. Hún flutti til Bandaríkjanna frá Rússlandi rúmum fjórum árum fyrr og segir að hún hafi starfaði í banka.

Þau fluttu með börnum sínum til Rússlands árið 2018 þegar Nazzaro tók til við að kynna The Base á netinu undir dulnefninu Norman Spear. Þá birti hann myndir og myndskeið frá ólögmæta, breska hryðjuverkahópnum National Action, fór lofsamlegum ummælum um al-Kaída og bað um liðsmenn í The Base sem væru ýmsum kostum búnir, til dæmis í vopnaburði.

Til eru upptökur þar sem Spear heyrist flytja fróðleik um „skæruhernað“. Honum er sjálfum lýst sem fyrrv. hermanni, fyrrv. útsendara CIA eða sérfræðingi í varnarmálafræðum.

Eftir að FBI handtók þrjá menn grunaða um aðild að The Base í fyrri viku birti Roman Wolf harðorða yfirlýsingu á áróðursvefsíðu hópsins og sagði að óhræddir mundu þeir halda áfram baráttunni fyrir að halda lífi.

FBI segir að leiðtogi hópsins hafi gefið mönnum sínum fyrirmæli um að eiga aðeins dulkóðuð samskipti á netinu og hafi þeir virt þá skipun. Mennirnir eru sakaðir um að hafa undirbúið morð á hjónum sem berjast gegn fasistum og börnum þeirra. Þetta hafi þeir gert eftir að foringi þeirra fól þeim að fremja ódæðisverk sem ekki væri unnt að rekja til þeirra en í fælust ótvíræð skilaboð.

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …