Home / Fréttir / Stjórn Georgíu hopar vegna mótmæla gegn umdeildu lagafrumvarpi

Stjórn Georgíu hopar vegna mótmæla gegn umdeildu lagafrumvarpi

Lögregla beitti táragasi gegn mótmælendum á götum Tblisi, höfuðborg Georgíu.

Stjórnarflokkur Georgíu, Draumaflokkur Georgíu, ákvað fimmtudaginn 9. mars að afturkalla umdeilt lagafrumvarp sem ætlað var að sporna við áhrifum erlendra erindreka í landinu. Í tvo daga mótmæltu tugir þúsunda Georgíumanna frumvarpinu á götum úti og sögðu að með samþykkt þess yrði vegið að frelsi í landinu.

Draumaflokkur Georgíu birti tilkynningu á vefsíðu sinni 9. mars þar sem sagði að ákveðið hefði verið að draga frumvarpið skilyrðislaust til baka. Hann sagði á hinn bóginn einnig að skoða þyrfti málið betur og miðla haldbetri upplýsingum um það til almennings.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að allir fjölmiðlar og frjáls félagasamtök sem fengju 20% af fjárstuðningi sínum frá útlöndum skyldi skrá sem „erlenda erindreka“. Þar með féllu þessir aðilar undir sérstakt eftirlit og kynnu að verða beittir refsingum.

Af hálfu félagasamtaka, fjölmiðla og sérfróðra var því haldið fram að með þessu væri „lýðræði í Georgíu ógnað“. Yfirvöldin sögðu að nauðsynlegt sé að grípa til þessara aðgerða í þágu aukins gagnsæis og til verndar rétttrúnaðarkirkju Geogríu.

Að kvöldi þriðjudagsins 7. mars voru 66 mótmælendur handteknir, þar á meðal leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Zurab Japaridze. Um 50 lögreglumenn særðust. Fyrstu umræðu um frumvarpið lauk með hraði þennan sama dag. Mótmælum var fram haldið miðvikudaginn 8. mars og þá létu konur sérstaklega að sér kveða gegn frumvarpinu – á alþjóðadegi kvenna.

Lagafrumvarpið sætti gagnrýni á Vesturlöndum og Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, sagði 7. mars að frumvarpið væri mjög slæmt fyrir Georgíu og íbúa landsins. Hvatti hann stjórn landsins til að virða skuldbindingar sínar um að vinna að lýðræðislegum umbótum og mannréttindum auk þess sem virða bæri rétt fólks til friðsamlegra mótmæla.

Salome Zurabishvili, forseti Georgíu, sagði að yrði frumvarpið að lögum mundi hún beita neitunarvaldi og ekki staðfesta þau. Þingið hefur hins vegar stjórnarskrárbundna heimild til að virða neitun forsetans að vettugi.

Á meðan frumvarpið var rætt á þingi þriðjudaginn 7. mars sagði bandaríska sendiráðið í Georgíu að efni þess vekti „spurningar um hollustu ráðandi flokksins við Evró-Atlantshafssamruna“. Þetta væri „svartur dagur fyrir lýðræði í Georgíu“, aðför að þrá fólks eftir lýðræði og frelsi.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar sögðu eftir afturköllun frumvarpsins að þeir mundu halda áfram mótmælum sínum þar til ríkisstjórnin hefði formlega hafnað því og sleppt þeim mótmælendum sem voru handteknir.

Stjórnarandstaðan í Georgíu gagnrýnir Draumaflokkinn fyrir að vera of hallan undir Rússa sem styðja aðskilnaðarsinna í georgísku héruðunum Abkhaziu og Suður-Ossetíu.

Georgía á landamæri að Rússlandi, Tyrklandi, Armeníu og Azerbaijdsan. Þar búa 3.7 milljónir manna og hafa stjórnmál þar verið stormasöm síðan Sovétríkin liðuðust í sundur 1991 og land þeirra varð sjálfstætt.

Helen Khoshtaria, stofnandi Droaflokksins, sagði á Twitter að mótmælin snerust ekki aðeins um lagafrumvarpið heldur einnig um rússneskt eðli Draumaflokks Georgíu. Enginn bæri traust til flokksins eða þess sem hann segði. Afturköllun frumvarpsins hefði í raun enga lagalega stöðu.

Innan Georgíu gætir vilja til að ganga í Evrópusambandið en embættismenn ESB sögðu að yrði frumvarpið um erlenda erindreka að lögum yrði það til að flækja aðildarferlið. Í fyrra vildi ESB ekki veita Georgíu stöðu umsóknarríkis þar sem áform um umbætur á stjórnarháttum landsins og dómskerfinu hefðu strandað.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …