
Nú í júní verða sex ár liðin frá því að Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, fékk hæli í sendiráði Ekvadors í London til að skjóta sér undan framsali til Svíþjóðar vegna ákæru á hendur honum um nauðgun. Hann naut sérstakrar verndar stjórnvalda Ekvadors sem sömdu við alþjóðlegt öryggisfyrirtæki um að fylgjast með Assange dag og nótt í sendiráðinu og öllum sem komu til hans þar.
Í breska blaðinu The Guardian birtist þriðjudaginn 15. maí löng úttekt á dvöl Assange í sendiráði Ekvadors og ráðstöfunum sem gerðar voru vegna hennar sem kostað hafa skattgreiðendur í Ekvador tugi milljóna Bandaríkjadala.
Vegna frásagnar blaðsins og gagnrýnna umræðna undanfarið um kostnað vegna Assange ákvað Lenin Moreno, núv. forseti Ekvador, fimmtudaginn 17. maí að tafarlaust skyldi hætt öllum sérstökum öryggisráðstofunum í sendiráði Ekvador í London. Framvegis skyldi öryggis gætt þar á sama hátt og í öðrum sendiráðum landsins.
Vinur Correa
Julian Assange bankaði upp á hjá sendiráði Ekvador í London í júní 2012 þegar krafist hafði verið framsals á honum til Svíþjóðar þar sem tvær konur kærðu hann fyrir nauðgun.
Skömmu síðar samþykkti vinstrisinnaður forseti Ekvadors, Rafael Correa (forseti 2007 til 2017) tilmæli Assange um hæli í sendiráðinu í óþökk breskra yfirvalda. Varð þetta tilefni spennu í samskiptum stjórnvalda Bretlands og Ekvadors.
Við þessar aðstæður samþykkti Correa forseti leynilega aðgerð sem fyrst var kölluð „Operation Guest“ og síðar endurnefnd „Operation Hotel“. Tilgangurinn var í upphafi að koma í veg fyrir að breskir rannsóknarlögreglumenn brytust inn í sendiráðsbygginguna og tækju Assange með sér á brott.

Njósnað um Assange
Skjöl sem The Guardian hefur undir höndum sýna hins vegar að mál þróuðust á annan og flóknari veg. Í stað þess að gæta Assange var tekið til við að njósna um hann og starfsemi WikiLeaks sem hélt áfram allt fram yfir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016.
WikiLeaks birti tölvubréf sem stolið hafði verið frá stjórn bandaríska Demókrataflokksins og háttsettum mönnum innan flokksins. Var þess vegna sagt að WikiLeaks hefði átt aðild að meintu samsæri Kremlverja til að grafa undan Hillary Clinton en styðja Donald Trump.
Óljóst er hvernig Assange komst yfir tölvubréfin. Robert Mueller, sérstaki saksóknarinn, sem rannsakar hvort leynimakk hafi verið milli kosningastjórnar Donalds Trumps og Rússa leitar meðal annars skýringa á þætti WikiLeaks í málinu. The Guardian segir eftir skoðun á leynigögnum að þar kunni að finnast mikilvægar vísbendingar fyrir Mueller.
Fyrir tæpum sex árum hófu fulltrúar Ekvador-stjórnar að fylgjast með Assange en þá voru myndavélar settar upp með leynd í sendiráði Ekvadors í London. Með þeim var fylgst með öllum sem komu í sendiráðið og því sem gerðist utan við það. Á tveggja manna vöktum allan sólarhinginn var haft auga með Assange, hann var ekki hleraður en á nærmyndum var unnt að greina andlegt ástand hans og sveiflur á því, venjur hans og svefntími var skráður.
Gestir skráðir
Leyniþjónusta Ekvador, Senain, samdi við alþjóðlegt öryggisfyrirtæki og árið 2012 nam mánaðargreiðsla til þess 55.000 dollurum (5,8 m ísl. kr.) á mánuði.
Leigð var íbúð í 100 m fjarlægð frá sendiráðinu og sváfu öryggisverðirnir þar. Skattgreiðendur í Ekvador vissu ekki að þeir greiddu 2.800 pund (um 400.000 ísl. kr.) á mánuði fyrir frumstæða kjallaraíbúð með tveimur svefnherbergjum í dýrasta hluta London.
Haldin var nákvæm skrá með persónuupplýsingum um alla sem heimsóttu Assange, komu- og brottfarartíma. Listi um þetta var sendur mánaðarlega með leynd til forseta Ekvadors, stundum fylgdu myndir og nánari útlistun á einstökum gestum.
The Guardian telur að Mueller hafi áhuga á þessum listum. Sagt er að hann hafi greint tölvuþrjótana sem réðust á tölvukerfi demókrata og virðist líta á WikiLeaks sem einn angann af fjölþættu njósnastarfi Rússa.
Tengsl við Moskvu
Assange neitar að segja hvernig WikiLeaks fékk tölvubréfin. FBI, bandaríska alríkislögreglan, telur að milliliður hafi komið bréfunum til WikiLeaks. James Comey, þáv. forstjóri FBI, taldi fyrirb bandarískri þingnefnd að útsendarar frá Moskvu hefðu átt hlut að máli.
Julian Assange hefur lengi haft tengsl við menn í Moskvu. Árið 2011 skrifaði hann undir samning við rússnesku ríkissjónvarpsstöðina RT. Hann gerði þætti með 10 viðmælendum fyrir stöðina, einn þeirra var Correa. Nokkrum vikum eftir samtal þeirra sótti Ástralinn Assange um hæli í sendiráði Ekvadors.
Nokkrir tugir manna heimsóttu Assange og fengu Senain og Correa skýrslur um komu þeirra allra.
Mikill kostnaður
Af reikningum sem hefur verið lekið sést að ríkisstjórn Ekvadors greiddi allt að 28 milljónum dollara (um 3 milljarðar ísl. kr.) fyrir eftirlitskerfi sem aðeins er selt ríkjum. Óljóst er hver notaði kerfið og hvar.
Svo virðist sem spennan hafi magnast vegna Assange innan stjórnkerfis Ekvadors árið 2014. Juan Falconí Puig, þáv. sendiherra Ekvadors, kvartaði til Senain eftir að hann fékk sendan reikning fyrir ógreitt fasteignagjald til bæjarfélagsins Kensington og Chelsea. Þetta var vegna leynilegu kjallaraíbúðarinnar. Falconí hafði ekki hugmynd um hana. Hann krafðist skýringa frá Quito, höfuðborg Ekvadors.
Haustið 2014 létu öryggisverðirnir vita af því að svo virtist með Assange hefði tekist að koma á leynilegu fjarskiptasambandi aðeins fyrir sig. Þeir sögðu einnig að hann hefði brotist inn í tölvukerfi sendiráðsins og læsi trúnaðarskjöl sem þar væri að finna. Við þessu var brugðist með að senda þrjá leyniþjónustumenn frá Quito til að auka öryggisgæslu í sendiráðinu.
Dvöl þeirra kostaði skattgreiðendur í Ekvador 35.000 dollara (3,7 m ísl. kr.) á mánuði sem bættist við kostnaðinn vegna samningsins við öryggisfyrirtækið sem var nú 97.000 dollarar (10,2 m ísl. kr.) á mánuði.
Assange í ónáð
Svíar hættu rannsókn sinni vegna ákæranna á hendur Assange árið 2017 og þá hætti Scotland Yard, breska lögreglan, að hafa menn sína á verði við sendiráð Ekvadors.
Undanfarnar vikur hefur afstaða ráðamanna í Quito gagnvart Assange breyst til hins verra fyrir hann. Lenín Moreno, forseti Ekvadors, lýsir honum sem dýru vandamáli sem hann hafi erft og telur hann þröskuld á leið til betri tengsla við Bandaríkjastjórn.
Í forsetakosningunum bar Donald Trump lof á WikiLeaks þegar þar birtust skjöl sem sköpuðu vandræði fyrir demókrata. Þegar Assange birti tölvubréf frá John Podesta, aðstoðarmanni Clinton, hrópaði Trump: „Ég elska WikiLeaks.“ Fyrir og eftir kosningarnar skiptist Trump á Twitter-skeytum við Assange. Svo virðist með afstaða Trumps hafi breyst eftir að WikiLeaks birti upplýsingar umn tól CIA til tölvuinnbrota.
Aðgangi Assange að internetinu var lokað í mars 2018. Hann fær ekki að taka á móti gestum. Correa, verndari Assange, er fluttur til Belgíu og starfar fyrir rússnesku ríkissjónvarpsstöðina RT.
The Guardian segir að Assange standi frammi fyrir erfiðum kostum. Yfirgefi hann sendiráðið kunni hann að verða handtekinn fyrir að hafa brotið gegn úrskurði um að hann gengi laus gegn tryggingu. Þá kynnu bandarísk yfirvöld að óska eftir framsali hans. Hann yrði látinn sitja í fangelsi á meðan framsalsmálið, sem hann kynni að vinna, yrði leitt til lykta.
Ljóst er að stjórnvöld Ekvadors hafa fengið sig fullsödd af Assange og vilja losna við hann úr sendiráðinu. Hann yfirgefur því sendiráðið fyrr en seinna hvert sem hann fer þaðan.