Home / Fréttir / Stigmögnun minnkar við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands

Stigmögnun minnkar við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands

Strandaglópar við landamæri Póllands.

Forsetar Bandaríkjanna og Rússlands hafa báðir látið til sín heyra vegna vaxandi spennu á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands þar sem þúsundir farenda frá Mið-Austurlöndum hafast við utan dyra eða í tjöldum í kulda og vosbúð. Varð að minnsta kosti einn Sýrlendingur úti á svæðinu aðfaranótt laugardags 13. nóvember. Talið er að 11 farendur að minnsta kosti hafi týnt lífi við landamæri Póllands síðan þessi skipulagða aðför að þeim hófst.

Joe Biden Bandaríkjaforseti lét í ljós „miklar áhyggjur“ vegna ástandsins föstudaginn 12. nóvember og sagðist hafa komið boðum þess efnis til Rússa. Nokkrum klukkustundum síðar fullyrti Vladimir Pútin Rússlandsforseti að stjórn sín ætti ekki neina aðild að þessu máli þótt fulltrúar Vesturlanda segðu að rússneskar flugvélar hefðu sést á sveimi nærri landamærunum og rússneskir hermenn hefðu verið æfingar nálægt vestur landamærum Hvíta-Rússlands sem liggja að þremur aðildarríkjum ESB og NATO, Lettlandi, Litháen og Póllandi.

Forystumenn ESB-ríkja saka stjórn Hvíta-Rússlands um að stunda „fjölþátta hernað“. Hún lokki saklausa borgara frá stríðshrjáðum Mið-Austurlöndum og Afríku og hreki þá að landamærum nágrannalanda sinna. Á þann hátt reyni Alexander Lukasjenko forseti Hvíta-Rússlands að hefna harma sinna á ESB-ríkjum fyrir að lýsa hann kosningasvikara í ágúst 2020 og beita hann refsiaðgerðum.

Nú segja Hvítrússar að þeir ráði ekki við straum farenda til landsins nema ESB hætti refsiaðgerðunum.

Pólverjar saka rússnesk stjórnvöld um að rétta Lukasjenko hjálparhönd við voðaverk hans.

Í vikunni sendi rússneski flugherinn sprengjuvélar sem nota má til að varpa kjarnasprengjum til æfinga í lofthelgi Hvíta-Rússlands. Þá voru fallhlífarhermenn einnig sendir til landsins og týndu að minnsta kosti tveir Rússar lífi í æfingum þeirra í um 10 km fjarlægð frá pólsku landamærunum.

Vladimir Pútin sagði í samtali við Vesti-útvarpsstöðina 13. nóvember að Rússar ættu engan hluta að vandræðum Hvítrússa við landamærin, þeir hefðu á hinn bóginn áhyggjur af svæðisbundnu öryggi á þessum slóðum. Hann sagðist vona að Angela Merkel Þýskalandskanslari ræddi við Lukasjenko, flestir aðkomumennirnir í Hvíta-Rússlandi vildu komast til Þýskalands.

Pútin gaf einnig til kynna að það spillti fyrir öryggismálum á Svarta hafi að herskip úr flotum NATO-ríkja létu að sér kveða þar.  Rússar hafa enn á ný stefnt verulegum herafla í átt að landamærum Úkraínu og á Krímskaga en ástandið á Svarta hafi versnaði eftir ólögmæta innlimun Krímskaga í Rússland árið 2014.

Varnarmálaráðuneyti Hvíta-Rússlands tilkynnti 12. nóvember að stofnað hefði verið til sameiginlegra æfinga með rússnesum fallhlífarhermönnum skammt frá pólsku landamærunum.

Þá tilkynnti stjórn Hvíta-Rússlands einnig föstudaginn 12. nóvember að hún hefði sent um 2.000 farendur til baka til heimalanda þeirra og hefði rift heimildum til 30 ferðaskrifstofa um að þær mættu bjóða farendum til Hvíta-Rússlands.

Sama dag tilkynntu nokkur flugfélög að þau mundu fækka ferðum milli Tyrklands og Minsk, höfuðborgar Hvíta-Rússlands.

Hvítrússneska fréttastofan BelTa sagði 13. nóvember að Lukasjenko hefði gefið fyrirmæli um að matartjöld yrðu reist við landamærin og höfuðáhersla yrði lögð á að hlú að börnum.

Írakar eru fjölmennir í hópi þeirra sem flogið hafa til Hvíta-Rússlands í von um að komast til ESB-landa. Írakska utanríkisráðuneytið tilkynnti 12. nóvember að það hefði afturkallað starfsleyfi ræðismanns Hvíta-Rússlands í Bagdad og að sendiráðsstarfsmenn Íraks í Moskvu og Varsjá samræmdu aðgerðir sem miðuðu að því að Írakar sneru til síns heima frá landamærunum. Þá hefði beint flug milli Íraks og Hvíta-Rússlands verið stöðvað.

 

 

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …