Home / Fréttir / Stigmögnun í deilum Breta og Rússa

Stigmögnun í deilum Breta og Rússa

Nikolai Glushkov
Nikolai Glushkov

Theresa May, forsætisráðherra Breta, sagði laugardaginn 17. mars að Bretar myndu ekki gefa eftir gagnvart Rússum eftir að þeir tilkynntu brottrekstur 23 breskra stjórnarerindreka vegna deilu þjóðanna eftir eiturefnaárásina í Salisbury.

May flutti ræðu á fundi í London með flokksmönnum sínum Íhaldsflokknum og sagði að asnaspörk Pútíns breyttu ekki þeirri staðreynd að Rússar brytu „gróflega gegn alþjóðalögum“. Það breytti ekki heldur neinu þótt Rússar lokuðu British Council.

Eftir að hafa fengið skýrslu um stöðu mála frá breska sendiherranum í Moskvu sagði May:

„ Í ljósi þess sem þeir hafa áður gert áttum við von á svona svari og næstu daga íhugum við næstu skref með bandamönnum okkar og samstarfsfélögum.

Svör Rússa breyta ekki staðreyndum málsins ­– morðtilraun við tvær manneskjur á bresku landi, í því máli er ekki unnt að komast neinni annarri niðurstöðu en að rússneska ríkið beri sökina. Rússar brjóta gróflega gegn alþjóðalögum og samningnum um efnavopn.“

Fréttaskýrendur segja að ekki komi á óvart að Rússar hafi rekið breska sendiráðsmenn úr landi. Þeir hafi hins vegar gengið skrefi lengra en Bretar gerðu með því að loka ræðismannsskrifstofu Breta í St. Pétursborg og British Council. Þar með hafi Rússar stigmagnað deiluna milli ríkjanna. Nú kunni að verða þrýst á May og stjórn hennar að svara Rússum af meiri hörku.

Bretar hafa haldið úti ræðismannsskrifstofum í St. Pétursborg og Jekaterinburg í Rússlandi. Rússar eru með ræðismannsskrifstofu í Edinborg.

Að loka ræðismannsskrifstofu á þann hátt sem Rússar gerðu er án fordæmis. Bent er á að í fyrra þegar Rússar ráku 755 bandaríska sendiráðsmenn úr landi eftir að Bandaríkjastjórn greip til refsiaðgerða gegn þeim vegna afskipta af bandarísku kosningunum, var engri ræðismannsskrifstofu Bandaríkjamanna lokað.

Bretar hófu starfsemi í ræðismannsskrifstofu sinni í St. Pétursborg, annarri stærstu borg Rússlands, árið 1992 og prinsinn af Wales opnaði hana formlega árið 1994. Þá heimsótti fulltrúi konungsfjölskyldunnar Rússland í fyrsta sinn frá byltingu bolsévika árið 1917. Karl prins opnaði einnig skrifstofu British Council í borginni.

Eftir að Bretar sendu rússneska stjórnarerindreka úr landi vegna morðsins á Alexander Litvinenko lokaði rússneska stjórnin skrifstofum British Council í St. Pétursborg og Jekaterinburg árið 2008.

British Council hefur starfað í Rússlandi án tillits til þess hvernig stjórnmálaástandið hefur verið í samskiptum Breta og Rússa. Það skipulagði viðburði árið 2014, menningarári Breta og Rússa og á 400 ára dánarafmæli Willams Shakespeares árið 2016. Um þessar mundir stendur British Council fyrir nokkrum tónleikum og hefur nýlokið samkeppni um Shakespeare-minnismerki í Moskvu.

Fösudaginn 16. mars hóf breska lögreglan Scotland Yard morðrannsókn eftir að hafa tilkynnt að rússneskur kaupsýslumaður sem fannst látinn heima hjá sér í suðurhluta London hefði verið kyrktur. Óttast er að hann hafi einnig orðið fyrir árás útsendara Moskvuvaldsins.

Nikolai Glushkov, 68 ára, gagnrýndi Vladimir Pútín harðlega og fékk hæli í Bretlandi þegar hann flýði frá Rússlandi árið 2006. Glushkov starfaði áður með Boris Berezovskíj, látnum rússneskum auðmanni.  Dauða Glushkovs bar að rúmri viku eftir að fyrrv. rússneski njósnarinn Sergei Skripal og dóttir hans Julia urðu fyrir eiturárási í Salisbury.

Dóttir Glushkovs fann hann látinn mánudaginn 12. mars eftir að hann lét hjá líða að sækja þing í verslunardómstóli í London.

Glushkov gegndi áður forstjóra rússneska ríkisflugfélagsins Aeroflot. Hann sagði vinum sínum að hann óttaðist að vera á aftökulista Kremlverja.

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …