
Steve Bannon, fyrrverandi hugsjónaráðgjafi Donalds Trumps, flutti laugardaginn 10. mars ávarp á flokksþingi frönsku Þjóðfylkingarinnar, flokks Marine Le Pen. Hann fagnaði bylgju popúlisma sem hann sagði að færi um heim allan.
Í The Washington Post (WP) sagði að heimsókn Bannons til Lille hefði komið á óvart, fyrst hefði verið sagt frá á henni á Twitter föstudaginn 9. mars. Bannon hefur verið á ferð um Evrópu, fyrst á Ítalíu síðan í Sviss. Frakkland er þriðja landið þar sem hann hefur viðdvöl og lætur að sér kveða.
„Ég kom til Evrópu til að kynna mér stöðu mála og læra,“ sagði Bannon. „Ég hef komist að raun um að þið eruð hluti af hreyfingu sem nær til alls heimsins, hún er stærri en Frakkland, stærri en Ítalía, stærri en Ungverjaland – stærri en allt þetta. Sagan er einnig hliðholl okkur. Bylgjufall sögunnar er okkur hagstætt og mun tryggja okkur sigur, eftir sigur, eftir sigur.“
Hann hvatti flokkinn einnig að halda fast í þjóðernissinnaðar rætur sínar. „Leyfið þeim að kalla ykkur rasista. Leyfið þeim að kalla ykkur útlendingahatara. Leyfið þeim að kenna ykkur við heimótta,“ sagði hann.
Hann réðst á elítuna sem hann sagði vilja leiða heiminn, Hillary Clinton og blaðamenn. Hann lét þess getið að sem starfsmaður Goldman Sachs bankans á sínum tíma hefði hann einu sinni selt fyrirtæki til franska bankans Société Générale. Við þetta braust út hæðnishlátur meðal fundarmanna. „Mér datt í hug að ykkur líkaði þetta,“ sagði hann.
Í febrúar fór Marion Maréchal-Le Pen, frænka Marine Le Pen, National Harbor í Maryland í Bandaríkjunum og talaði þar á pólitískum baráttufundi bandarískra íhaldsmanna. Hún hefur dregið sig frá virkri stjórnmálaþátttöku í Frakklandi, að minnsta kosti í bili.
Hún sagði þar meðal annars í Maryland: „Ég tek það ekki nærri mér þegar ég heyri Donald Trump forseta tala um Bandaríkin fyrst. Ég vil Bretland fyrst fyrir Breta og Frakkland fyrst fyrir Frakka.“
Steve Bannon neyddist til að hverfa úr starfsliði Donalds Trumps í Hvíta húsinu í ágúst 2017. Hann varð einnig að segja sig frá Breibart-vefsíðunni sem hann stofnaði í janúar 2018 þegar skýrt var frá samskiptum hans við samstarfsmenn í Hvíta húsinu í bókinni Fire and Fury. Einkum þóttu ummæli hans börn Trumps ámælisverð. Ferð Bannons til Evrópu er liður í tilraun hans til að ávinna sér nýjan sess sem áhrifamaður í baráttu popúlista.
Marine Le Pen reynir einnig að treysta stöðu sína og flokks síns eftir slæma útreið í forseta- og þingkosningunum í júní 2017. Þjóðfylkingin hlaut aðeins átta sæti af 577 á franska þinginu og vill reyna að bæta stöðu sína.
Markmið Marine Le Pen er að breyta ásýnd flokksins á flokksráðstefnunni í Lille.