Home / Fréttir / Stefnt að áætlunarsiglingum milli Tasiilaq á A-Grænlandi og Reykjavíkur

Stefnt að áætlunarsiglingum milli Tasiilaq á A-Grænlandi og Reykjavíkur

Gámaskip Royal Arctic Line
Gámaskip Royal Arctic Line

Fulltrúi Royal Arctic Line á Grænlandi skrifaði föstudaginn 20. desember 2019 undir kaupsamning um nýtt gámaskip til siglinga við austurströnd Grænlands og til Íslands. Um er að ræða skip sem getur flutt 108 TEU, það er 108 tuttugu feta gáma. Þess er vænst að skipið verði afhent kaupandanum í apríl.

Í tilkynningu Royal Arcrtic Line vegna kaupanna segir að skipinu sé einkum ætlað að sigla á milli Reykjavíkur og Tasiilaq. Á þann hátt sé unnt að auka þjónustu við Austur-Grænland bæði með fjölgun ferða og tengslum við alla heimshluta.

Stefnt er að því að hafa viðdvöl í Reykjavík í hverri viku á norður- og suðurleið. Vegna þessara tengsla afréð skipafélagið að kaupa nýtt skip til að þjónusta Austur-Grænland á tíma íslausrar hafnar í Tasiilaq. Er ætlunin að fjölga ferðum þangað um 50% á íslausa tímanum. Í tilkynningunni segir að með því að nýta skip til Reykjavíkur og flugvél þaðan sé tæknilega unnt að koma framleiðslu frá Tasiilaq til hágæða veitingastaði umheimsins á 72 tímum.

Um Tasiilaq

Lesa á um Tasiilaq í net-alfræðiorðabókinni Wikipediu. Þar segir:

„Tasiilaq er stærsti þéttbýlisstaður á Austur-Grænlandi. Íbúafjöldi var árið 2013 um 2017 manns. Tasiilaq er aðalþéttbýliskjarni í byggðarlaginu Ammassalik og annað tveggja þorpa á 3000 km langri austurströnd Grænlands. Þorpið var áður nefnt Ammassalik en það nafn er nú einungis notað um byggðarlagið allt. Á grænlensku þýðir nafnið „þorpið við fjörðinn sem er eins og stöðuvatn“.

Þorpið er mjög einangrað, yfir veturinn er einungis hægt að komast þangað með þyrlu, hundasleða eða snjósleða. Frá júlí fram í nóvember kemur farskip um það bil fjórum sinnum með nauðsynjar.

Tasiilaq ber enn merki upphaflegrar menningar og lífskjara. Íbúar lifa einkum af veiðum og þjónustu. Rúm hundrað ár eru frá því að fyrstu Evrópumennirnir komu á svæðið, byggðu hús og stofnuðu þorpið.

Fólk hefur nýlega flust frá smærri, nálægum byggðum til Tasiilaq og hefur sú fjölgun valdið atvinnuleysi (sem var um 30% árið 2016) og húsnæðisskorti.“

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …