Kosningaþátttaka í fyrri umferð frönsku þingkosninganna sunnudaginn 11. júní var aðeins 51,2% en spár sýna að í seinni umferðinni sunnudaginn 18. júní fái nýr stjórnmálaflokkur Emmanuels Macrons, nýkjörins Frakklandsforseta, yfirgnæfandi meirihluta eða 415 til 455 þingsæti af 577.
Forsetaflokkurinn heitir La Republique En Marche! (LREM) og vísar til nauðsynjar þess að breyta franska lýðveldinu. Flokkurinn er í samstarfi við Modem, miðju-demókrata.
„Franskur almenningur hefur sýnt að hann vill að við hröðum okkur,“ sagði Christophe Castaner, talsmaður ríkisstjórnarinnar.
Talið er að forsetaflokkurinn fái um 32%, Lýðveldisflokkurinn (mið-hægri) 21,2%, Þjóðfylking Marine Le Pen um 14%, svipað og í þingkosningunum 2012 en átta stiga hrap frá forsetakosningunum. LFI, vinstri flokkur sem Jean-Luc Mélechon leiðir og kommúnistar fá 14,2% og Sósíalistaflokkurinn sem hefur verið við völd 13.3%
Margir þjóðkunnir forystumenn franskra sósíalista féllu í fyrri umferð þingkosninga, þeirra á meðal Jean-Christophe Cambadélis flokksformaður. Hann sagði um úrslitin: „Það er hvorki heilsusamlegt né æskilegt fyrir forseta sem fékk aðeins 24% atkvæða í fyrri umferð forsetakosninganna og sem náði aðeins kjöri í seinni umferðinni vegna andstöðu við öfga-hægrið að ná einokunarvaldi á þingi.“
Vafi er á að sósíalistar fái 15 þingmenn kjörna en sá fjöldi er skilyrði til að litið sé á hóp þingmanna sem þingflokk með þeim réttindum sem því fylgir.