Home / Fréttir / Stefna að ákvörðun um NATO-aðild í vor

Stefna að ákvörðun um NATO-aðild í vor

 

Mið-hægriflokkar Finnlands og Svíþjóðar, Kansallinen Kokoomus og Moderatarna, hafa skipað sameiginlegan NATO-starfshóp.

Flokkarnir vilja að Finnar og Svíar sendi samtímis umsóknir um aðild að NATO fyrir ríkisoddvitafund bandalagsins sem haldinn verður í lok júní í Madrid.

Fyrsti fundur sameiginlega NATO-starfshópsins verður miðvikudaginn 6. apríl í Stokkhólmi.

Petteri Orpo, formaður finnska flokksins, sagði sunnudaginn 3. apríl að hefði nýlega rætt þetta mál náið við Ulf Kristersson, formann Moderatarna.

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sagði í ræðu á fundi flokks síns, Jafnaðarmannaflokksins, í Helsinki laugardaginn 2. apríl að ræða þyrfti ítarlega og hratt um kosti og galla NATO-aðildar og leiða málið til lykta á heimavelli í vor.

Vegna innrásar Rússa í Úkraínu sagði forsætisráðherrann óhjákvæmilegt fyrir Finna að endurskoða stefnu sína í öryggismálum. „Rússar eru ekki þeir nágrannar sem við héldum þá vera,“ sagði Sanna Marin.

Hún sagði Finna verða að takast á við afleiðingar ákvörðunar sinnar hvort sem þeir vildu vera utan NATO eða innan. Hún mundi gera grein fyrir afstöðu sinni í umræðunum sem nú hlytu að hefjast.

Marin lagði áherslu á að hún vissi ekki um neitt ríki innan NATO sem væri andvígt hugsanlegri umsókn Finna.

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …