Home / Fréttir / Statoil ræðst í stærsta verkefni sitt á norðurslóðum

Statoil ræðst í stærsta verkefni sitt á norðurslóðum

 

Vinnslumynd af Johan Castberg-svæðinu í Barentshafi.
Vinnslumynd af Johan Castberg-svæðinu í Barentshafi.

Norska ríkisolíufélagið Statoil tilkynnti þriðjudaginn 5. desember að ráðist yrði í risavaxið olíuvinnsluverkefni þess í Barentshafi. Verkefnið er kennt við Johan Castberg (norskan lögfræðing og stjórnmálamann um aldamótin 1900) og er hið mesta sem Norðmenn hafa nokkru sinni tekið sér fyrir hendur á norðurslóðum. Ætlað er að allt að 5 milljörðum evra verði varið til að þróa vinnslu á svæði sem talið er að skili jafngildi 450 til 650 milljónum tunna af olíu.

Tilkynningin um að ráðist verði í verkefnið kemur í sjálfu sér ekki á óvart en hún vekur samt mikla athygli vegna þess að á árinu 2017 tókst Statoil ekki að finna olíu á svæðinu þrátt fyrir nokkrar leitarboranir þar.

Nokkru fyrir sunnan Johan Castberg-svæðið lenti olíufélagið Eni í alvarlegum vandræðum með Goliat-verkefnið sitt, Statoil á 35% í leyfinu sem stendur að baki leit Eni.

Margareth Øvrum, framkvæmdastjóri tækni, verkefna og borana hjá Statoil, fagnaði að ráðist yrði í Johan Castberg-verkefnið. Það væri þungamiðjan í frekari sókn Statoil á norðurslóðum og næstu 30 ár mundu Norðmenn njóta góðs af því sem af verkefninu leiddi.

Stefnt er að því að fyrsta olían verði unnin á svæðinu árið 2022 segir í fréttatilkynningu frá Statoil.

Johan Castberg-svæðið er á 72° norður og er nyrsta vinnslusvæðið á norska landgrunninu. Tvö önnur verkefni á svæðinu, gasverkefnið Snøhvit og olíuverkefnið Goliat eru á 71°norður.

Upphaflega reiknaði Statoil með að verja allt að 100 milljónum NOK til þróunar á svæðinu frá bækistöð á strönd Finnmerkur. Nú er hætt við slíka bækistöð og ætlunin er að nota svonefnd Floating Production, Storage and Offloading (FPSO) skip, það er fljótandi framleiðslu, geymslu og aflestunar skip.

Miðað við kostnaðaráætlun er talið að vinnsla á svæðinu verði arðbær þótt olíuverð sé „undir 35 dollurum hver tunna,“ segir félagið.

Samið er við Aker Solutions AS um að gera mannvirkin á Johan Castberg-svæðinu. Samningar um þetta nema 407 milljónum evra. Þar er um að ræða 30 holur, 10 neðansjávar sniðmát og tvær gervihnattastöðvar.

Statoil stefnir að því að nota gas sem orkugjafa á svæðinu. Þessi leið er valin á Johan Castberg-svæðinu vegna þess að Eni neyddist oftar en einu sinni til að gera hlé á vinnu á Goliat-svæðinu vegna orkuskorts. Á Goliat var treyst á rafmagn með streng úr landi.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …