Home / Fréttir / Statoil fann enga olíu á nyrsta rannsóknarsvæðinu í Barentshafi

Statoil fann enga olíu á nyrsta rannsóknarsvæðinu í Barentshafi

Map of the Korpfjell discovery

Norska ríkisolíufélagið Statoil fann ekki olíu á nyrsta rannsóknarsvæði sínu, Korpfjell, í Barentshafi. Félagið segir að þetta hafi verið „mikilvægasta könnunarhola þess í ár“ á norska landgrunninu. Hlutabréf í félaginu lækkuðu um rúmlega 1,5% þriðjudaginn 29. ágúst eftir að tilkynningin um að engin olía hefði fundist birtist. Hlutabréfaverðið hækkaði þó að nýju um 0,7% að morgni miðvikudags 30. ágúst.

Aldrei hefur verið borað norðar í Barentshafi en á Korpfjell-svæðinu. Það var á svokölluðu gráu svæði milli Noregs og Rússlands sem var afmáð árið 2010 þegar stjórnvöld landanna náðu samkomulagi um markalínu og Norðmenn eignuðust Korpfjell.

Dan Tuppen sem stjórnar rannsóknum á vegum Statoil í Barntshafi lýsti vonbrigðum með niðurstöðuna. Nú yrði hins vegar unnið úr þeim upplýsingum sem hefði verið aflað með boruninni. Haldið yrði áfram olíuleit á þessum slóðum á næsta ári. Þá yrðu boraðar fimm holur.

Tuppen segir að Statoil bindi miklar vonir við að olía finnist í Barentshafi. Félagið og önnur olíufélög njóta eindregins stuðnings norsku ríkisstjórnarinnar. Fyrr á þessu ári kynnti ríkisstjórn 93 ný svæði til rannsóknar í Barentshafi.

Sérfræðingar hjá Statoil segja að brýnt sé að rannsaka ný svæði, finna verði nýjar og gjöfular olíulindir til að tryggja samfellu í vinnslunni á landgrunni Noregs.

Ørjan Birkeland, verkefnastjóri hjá Statoil, segir að fimmta hvern dag sigli fullhlaðið gasflutningaskip frá Melkøya með farm frá Snøhvit-gasvinnslusvæði félagsins í Barentshafi. Um borð í hverju skipi sé farmur sem sé 250 m. norskra króna (3,4 milljarða ISK) virði. Vegna þessarar vinnslu hafi orðið til 600 störf í Hammerfest í Norður-Noregi.

Eftir að ríkisstjórnir Noregs og Rússlands sömdu um markalínuna í Barentshafi árið 2010 tókst samstarf milli Statoil og rússneska ríkisolíufélagsins Rosneft um rannsóknir víða á rússneska landgrunninu. Eftir að Norðmenn og ESB gripu til refsiaðgerða gegn Rússum árið 2014 gena innlimunar á Krím hefur sameiginleg olíuleit Rússa og Norðmanna stöðvast.

.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …