
„Þótt bandaríski flotinn sé að endurnýja aðstöðuna í fyrrverandi flugherstöðinni á Íslandi og það sé vegna endurvakinnar hernaðarlegrar athygli á Norður-Atlantshaf segja embættismenn flotans að það þýði ekki að bandarískir hermenn hefji fasta viðveru í þessu hernaðarlega mikilvæga landi.“
Á þessum orðum hefst grein sem Nancy Montgomery skrifar í blað Bandaríkjahers Stars and Stripes þriðjudaginn 9. janúar undir fyrirsögninni: Engin föst viðvera fyrir kafbátaveiðara flotans á Íslandi þrátt fyrir mannvirkjagerð.
Hér birtist meginefni greinarinnar:
Flotinn hefur fengið tæplega 36 milljónir dollara (um 3,7 milljarða ísl. kr.) á tveimur síðustu fjárlögum til að endurnýja flugskýlið í flotaflugherstöðinni Keflavík í því skyni að þjónusta P-8A Poseidon-þoturnar sem stunda kafbátaveiðar.
Fjárveitingarnar eru hluti aðgerða sem gripið var til eftir að Rússar réðust árið 2014 inn á Krímskaga og sem svar við ákvörðun rússneskra stjórnvalda um að senda háþróaðri kafbáta og herskip út á Atlantshaf og inn á Miðjarðarhaf.
Þetta er þó ekki undanfari þess að bandarískt herlið verði sent til dvalar í Keflavíkurstöðinni þar sem einu sinni um 5.000 manna bandarískur liðsafli.
Bandaríkjaher kom stöðinni á fót í seinni heimsstyrjöldinni sem millilendingarstað fyrir flugvélar sem fluttu mannaafla, tæki og birgðir til Evrópu. Herafli Bandaríkjanna og NATO nýtti sér stöðina í kalda stríðinu þar til henni var loks lokað árið 2006.
„Ísland er enn sem fyrr öflugt aðildarríki NATO en Bandaríkjamenn hafa engar áætlanir um að senda að nýju herlið til varanlegrar dvalar á Íslandi,“ segir Pamela Rawe, upplýsingafulltrúi herstjórnar bandaríska flotans fyrir Evrópu og Afríku.
„P-8A vélarnar sem nú nota aðstöðuna á Íslandi koma þangað öðru hverju,“ segir Rawe. „Þetta þýðir að þegar þær taka þátt í aðgerð eða æfingu nota þær Kelavíkurflugvöll og snúa síðan að nýju til „heimastövar“ sinnar í Sigonella, Ítalíu.“
Rawe segir að fyrsta sveit af Boeing P-8A eftirlitsvélunum, sem koma í stað P-3C Orion skrúfuhverfla leitarvélanna innan flotans, hafi verið send til starfa í Evrópu í september 2016.
Hún segir að venjulega séu ein eða tvær P8-vélar – úr sveit sjö eða átta véla – sendar til starfa frá Íslandi, venjulega vegna heræfinga og án fyrirvara.
Sérfræðingar eiga þó von á auknu eftirlitsflugi á hafsvæðinu sem kallað er GIUK-hliðið – skammstöfun fyrir svæðið frá Grænlandi um Ísland til Bretlands – þrengingu á Norður-Atlantshafi og á leið rússneska Norðurflotans út á Atlantshaf.
Vegna legu sinnar á þessum stað hefur Ísland hernaðarlegt gildi.
Það er „ósökkvanlegt flugmóðurskip sem nota má til flugtaks í miðju Atlantshafi,“ segir Magnus Nordenmann hjá Atlantic Council, hugveitu í Washington. „Það hefur varanlegt gildi fyrir varnir Norður-Atlantshafs.“
Nordenman segir að eftir áratuga langt „næstum algjört afskiptaleysi“ af Norður-Atlantshafi vegna aðgerða annars staðar í heiminum beinist athygli NATO nú aftur þangað. Bretar og Norðmenn eru einnig að kaupa P8-vélar, segir hann og innan NATO ræða menn að koma á fót nýrri „Atlantshafs-herstjórn“ til að glíma við nýja ógn.
„Áratugum saman skipti Norður-Atlantshaf ekki máli. Rússneski flotinn fór varla úr höfn,“ segir Nordenmann. „Það hefur breyst með aukinni áreitni Rússa. Nú beinist athygli aftur þangað.“
Íslendingar eru hins vegar friðsöm þjóð án hers og þar hafa löngum verið mjög skiptar skoðanir um dvöl bandarísks herafla.
„Þetta er einstakt NATO-ríki,“ segir Nordenman. „Mikilvægið felst í landafræðinni.“
Katrín Jakobsdóttir, nýr forsætisráðherra landsins, sagði í fyrra mánuði að hún vildi meiri upplýsingar um áætlanirnar og hvort Bandaríkjamenn þyrftu samþykki Íslendinga til að framkvæma þær.
„Ég hef einnig rætt málið við utanríkisráðherrann og það eru ekki uppi nein áform um fasta langtíma (hernaðarlega) viðveru sem skiptir miklu að mínu mati,“ sagði hún við Reykjavik Grapevine.
Rawe segir að unnið sé að hernaðarlegu byggingaverkefnunum „í fullu samráði við ríkisstjórn Íslands“.
montgomery.nancy@stripes.com