Home / Fréttir / Stalínsetur spretta upp með velþóknun Pútins

Stalínsetur spretta upp með velþóknun Pútins

Svonefnd Stalínsetur rísa nú æ víðar um Rússland í samræmi við áhuga Vladimir Pútins Rússlandsforseta á að endurreisa virðingu sovéska harðstjórans. Setrin eru í stærstu borgum Rússlands og markmið starfsemi þeirra er að tryggja Jósepi Stalín sess „sögulegs stórmennis“ í samhengi við stuðning við stríð Pútins í Úkraínu.

Annað Stalínsetur Rússlands var opnað í borginni Barnaul í Altai um miðjan desember 2023. Í ræðu sem héraðsformaður Kommúnistaflokksins, Sergei Matasov, flutti þakkaði hann Stalín fyrir að nútímavæða heiminn í stjórnartíð hans í Sovétríkjunum 1924-53.

„Hagstjórn Stalíns, stjórnmál Stalíns og menning Stalíns var aflgjafi framfara í heimunum. Þetta var afdráttarlaust gæðaskref,“ sagði hann.

Rússneski Kommúnistaflokkurinn er í stjórnarandstöðu innan þess ramma sem Pútin og félagar hans í Kreml setja. Flokkurinn opnaði fyrsta Stalínsetrið árið 2023 í Nizhníj Novgorod. Þar er eins og í setrinu í Barnaul er markmiðið að hafa áhrif á viðhorf gesta með því að kynna þeim safn af Stalín-ljósmyndum, ræðum, brjóstmyndum og öðrum minjagripum.

Sérfræðingar segja að Pútin hafi alltaf hvatt til þess að gert yrði sem mest úr Stalín og sigri hans yfir Þýskalandi nazismans í annarri heimsstyrjöldinni sem Rússar kalla föðurlandsstríðið mikla. Frá því að þessu stríði lauk hefur því aldrei verið hampað meira í Rússlandi en núna.

„Að þeirra sögn berjast þeir núna við nazista í Úkraínu, nú er föðurlandsstríðið mikla 2.0 háð þar. Þess vegna er Stalín sem sigraði nazista góð ímynd fyrir ríkisstjórnina,“ segir dr. Stephen Hall, aðstoðarprófessor í rússneskum stjórnmálum við Bath-háskóla í Bretlandi, við The Telegraph.

Pútin hyllti Stalín sem „mikilmenni“ í ræðu sem hann flutti til heiðurs rússneska þjóðríkinu árið 2022 og árið 2016 fór Vladimir Medinskíj, þáverandi menningarmálaráðherra og núverandi ráðgjafi Pútins, til Tver-héraðs fyrir norðan Moskvu til að afhjúpa minnismerki um Stalín.

Samkvæmt yfirliti sem birtist á Totsjka-vefsíðunni eru nú 110 minnismerki um Stalín í Rússlandi, 37 þeirra voru reist eftir að Pútin varð forseti á gamlársdag 1999.

Þessum jákvæða Stalín-áróðri er einkum beint að börnum. Á þessu nýbyrjaða ári stefna Kremlverjar að því að efna til risafimleikasýningar rússneskra unglinga á Rauða torginu í fyrsta sinn síðan Stalín dó árið 1953.

Stalínsetrið í Barnaul skipulagði einnig skyndiös (e. Flash mob) rússneskra skólabarna til að fagna afmæli Stalíns í desember. Birtar voru myndir af þeim þar sem þau héldu á handskrifuðum spjöldum þar sem stóð: Til hamingju, félagi Stalín! og Halló, mikli Stalín!

Á Totskja segir að frá því að Rússar réðust inn Úkraínu í febrúar 2022 hefðu tæplega 10 Stalín-minnismerki verið reist og við hvert þeirra væri birtur „Z-

áróður“, það er blekkingaráróður Kemlverja til stuðnings innrásinni í Úkraínu.

Prestur vígði eitt minnismerkið sem reist var í Pskov þótt Stalín bannaði alla trúariðkun. Öðru var komið fyrir á bekk í einkaskóla fyrir utan Kazan í miðhluta Rússlands.

 

Heimild: The Telegraph

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …