Home / Fréttir / Stærsti ísbrjótur heims á tilraunasiglingu

Stærsti ísbrjótur heims á tilraunasiglingu

Risaisbrjóturinn Arktika í St. Pétursborg.
Risaisbrjóturinn Arktika í St. Pétursborg.

Arktika, kjarnorkuknúinn ísbrjótur Rússa, sem sagður er stærsti og öflugasti ísbrjótur í heimi, sneri í vikunni til hafnar í St. Pétursborg, Eystrasaltshöfn Rússlands, eftir tveggja daga tilraunasiglingu.

Rosatom, rússneska ríkisfyrirtækið til hagnýtingar kjarnorku, lét smíða 173 m langan og 15 m háan ísbrjótinn. Honum er ætlað að veita aðstoð við flutning á fljótandi jarðgasi (LNG) í Norður-Íshafi. Skipið er sagt geta brotið allt að þriggja metra þykkan ís.

Mustafa Kashka, forstjóri Atomflot, rússneska ríkisfyrirtækisins sem heldur úti ísbrjótaflota Rússa segir skipið hafa reynst vel á tilraunasiglingunni. Það vakti þó athygli að í þessari jómfrúarferð var skipið knúið díselolíu en ekki kjarnorku.

Arktika var hleypt asf stokkunum árið 2016. Skipið er fyrsta skipið í áætlun sem miðar að því að tryggja opna siglingaleið um Norðurleiðina, það er leiðina frá Atlantshafi til Kyrrahafs fyrir norðan Rússland, allan ársins hring.

Skipið verður sent til lokatilrauna á hafi úti í mars og apríl 2020 og er ætlunin að taka það formlega í notkun í maí. Unnið er að smíði tveggja systurskipa, Ural og Sibir.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …