Home / Fréttir / Stærsta herskip heims milli Íslands og Noregs

Stærsta herskip heims milli Íslands og Noregs

USS Gerald Ford

Stærsta herskip í heimi, bandaríska flugmóðurskipið USS Gerald Ford, létti akkerum á Oslóarfirði að morgni mánudags 29. maí og hélt á haf út til æfinga á hafsvæðinu milli Noregs og Íslands. Óvíst er hve norðarlega skipið fer en nyrst í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi fara nú fram flugheræfingar, ACE 23.

Risavaxið flugmóðurskipið lagðist við festar á Oslóarfirði miðvikudaginn 24. maí og heldur nú til þátttöku í æfingum með öllum greinum norska hersins. Á þennan hátt sýnir Bandaríkjastjórn og bandaríski flotinn samstöðu með Noregi og öllum þjóðum við Norður-Atlantshaf og á Skandinavíuskaga.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsækir herflugvöll Svía skammt frá Luleå í Norður-Svíþjóð áður en hann heldur til óformlegs fundar utanríkisráðherra NATO-ríkjanna í Osló 31. maí og 1. júní. Tobias Billström, utanríkisráðherra Svía, situr fundinn í Osló.

Líkur á að Tyrkir falli frá andstöðu við aðild Svía að NATO eru taldar hafa aukist við að Recep Tayyip Erdogan náði endurkjöri í annarri umferð forsetakosninga í Tyrklandi sunnudaginn 28. maí; hann þurfi ekki lengur að höfða til kjósenda með því að sýna hvers hann sé megnugur á NATO-vettvangi.

USS Gerald Ford varð hluti bandaríska sjóhersins árið 2017, fyrsta flugmóðurskipið sem sjóherinn hefur þróað og látið smíða í 40 ár. Þetta fljótandi 337 m langa og 76 m háa virki (Hallgrímskirkjuturn er 75 m hár) ber nafn 38. forseta Bandaríkjanna. För þess nú er einungis í annað skipti sem skipinu er siglt til annarra landa.

Við komu skipsins til Noregs sagði Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, að heimsóknin væri skýrt merki um þá öryggistryggingu sem Norðmenn nytu frá NATO og um náið samstarf þeirra við Bandaríkjamenn.

Talsmaður bandaríska sjóhersins sagði að heimsókn skipsins til Noregs stuðlaði að því að skapa festu í strategíska samstarfinu við Evrópuríkin og auka öryggi á Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum.

Rússar líta málið öðrum augum. Timur Tsjekaov, fulltrúi rússneska sendiráðsins í Noregi, sagði að á þessu svæði væru engin vandamál sem krefðust hernaðarlegrar lausnar eða jafnvel ytri íhlutunar. Í ljósi þess að Norðmenn viðurkenndu að þeim stafaði engin bein ógn af Rússum væru ógnvekjandi tilburðir eins og þessi tilefnislausir. Raunar væru þeir skaðvænlegir.

Sigla má USS Gerald Ford á allt að 30 hnúta hraða (56 km) á klukkustund. Um borð er radarstýrt loftvarnakerfi og stórar byssur til varna gegn loftárásum og þar er í fyrsta sinn í skipum af þessari gerð notað rafsegulmagnað slöngvikerfi fyrir flugvélar. Kerfið getur þeytt allt að 50 tonna flugvélum á 200 km hraða. Flugbraut skipsins er innan við 100 m löng. Um borð í flugmóðurskipinu er rými fyrir að minnsta kosti 90 orrustuvélar og þyrlur. Kostnaður við hönnun, smíði og reynslusiglingar skipsins nam rúmlega 18 milljörðum dollara.

Þegar skipið hélt út Oslóarfjörðinn vísaði talsmaður norsku herstjórnarinnar í öryggisreglur og vildi ekki segja hvert skipið héldi til æfinga. Auk þess væri skipið bandarískt og yfirstjórn sjóhers Bandaríkjanna skýrði frá ferðum þess.

Norska ríkisútvarpið segist hafa heimildir fyrir því að skipið taki þátt í æfingunni Arctic Challenge Exercise  (ACE) á Vestrála-svæðinu norður við Andøya fyrir norðan Lófót.

Svíar, Finnar, Norðmenn og Danir bjóða til Arctic Challenge Exercise 23 (ACE 23). ACE er fjölþjóðleg æfing flugherja og fer að þessu sinni fram 29. maí til 9. júní. Talið er að fyrir utan USS Gerald Ford taki um 120 flugvélar og 2.700 manns frá 14 ólíkum löndum þátt í ACE 23. Er þetta ein viðamesta æfing flugherja í Evrópu á þessu ári.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …