Home / Fréttir / Stærsta herskip Breta fyrr og síðar í reynslusiglingar

Stærsta herskip Breta fyrr og síðar í reynslusiglingar

Queen Elixabeth
Queen Elixabeth – ellefu dráttarbáta þurfti til að koma skipinu á Forth-fjörðin.

Stærsta herskip sem Bretar hafa nokkru sinni eignast fór út á Forth-fjörð í Skotlandi í fyrsta sinn mánudaginn 26. júni. Þetta er 65.000 lesta flugmóðurskipið Queen Elizabeth sem var smíðað í Rosyth-skipasmíðastöðinni skammt frá Edinborg og rétt smaug um rennu út á fjörðinn en á leið úr honum fer skipið undir þrjár brýr.

Á Norðursjó verður skipið í reynslusiglingum. Bretar ætla að smíða tvö flugmóðurskip af þessari gerð fyrir meira en sex milljarða punda. Í The Telegraph segir að breska flotastjórnin búist við því að skipið dragi að sér rússneska kafbáta, skip og flugvélar. Rússar hafi áhuga á að afla sér sem mestrar vitneskju um hæfni nýja flaggskips breska flotans.

Talið er að herskip úr breska flotanum fylgi HMS Queen Elizabeth og fylgst verði með kafbátum í grennd við það úr þyrlum frá flugvöllum á landi.

Alls verða 1.000 sjóliðar og fulltrúa verktaka um borð fyrsu sex vikurnar sem skipið er á siglingu til að fylgjast með gangi þess og virkni allra tækja um borð. Áhöfnin hefur stundað margra stunda æfingar um borð í skipinu dag hvern og hlotið þjálfun til að takast á við eld, leka og að maður falli fyrir borð. Farið hefur verið yfir rúmlega 650 hurðir og hlera til að tryggja að hvergi leki og eldveggir virki.

Fyrsta stálið var sniðið í skipið fyrir átta árum en það tekur ekki þátt í aðgerðum fyrr en árið 2021. Breski flotastjórnin hefur ekki ráðið yfir flugmóðurskipi síðan í niðurskurðinum árið 2010. Um borð verða 40 flugvélar en tilraunir með þær hefjast á næsta ári.

Portsmouth verður heimahöfn skipsins.

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …