Home / Fréttir / Stærsta heræfing Rússa frá árinu 1981 stendur fyrir dyrum í september

Stærsta heræfing Rússa frá árinu 1981 stendur fyrir dyrum í september

 

 

Vladimir Pútín með varnarmálaráðherranum og yfirmanni rússneska flotans.
Vladimir Pútín með varnarmálaráðherranum og yfirmanni rússneska flotans.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti vill láta reyna á viðbúnað rússneska heraflans og hefur gefið fyrirmæli um að efnt skuli til mestu heræfinga í Rússlandi fá árinu 1981 þegar Sovétríkin voru við lýði. Æfingin heitir Vostok-2018 og hefst 11. september.

„Þetta verður einstæð æfing þegar litið er til landfræðilegs umfangs, herstjórnakerfis og fjölda þátttakenda,“ segir hershöfðinginn Sergej Sjojgu, varnarmálaráðherra Rússlands, við fréttastofuna Interfax.

Gangi orð ráðherrans eftir verður æfingin stærri en Vostok-2014 þar sem 150.000 hermenn, 600 flugvélar og 80 herskip létu að sér kveða.

Frá mánudegi 20. ágúst til og með föstudags 24. ágúst verður gerð úttekt á hæfni rússneska hersins til þátttöku í æfingunni að fyrirmælum Pútíns.

Þá verða herstjórnir á mið- og austur herstjórnarsvæðum sem hafa aðsetur í Jekaterinburg og Khabarovsk virkjaðar. Sömu sögu er að segja um flugher Rússa og herflutningadeildir. Auk þess á að Norðurflotinn aðild að Vostok-2018.

Á norsku vefsíðunni ABC Nyheter  er þriðjudaginn 21. ágúst rætt við Tor Bukkvoll, sérfræðing hjá Rannsóknastofnun hersins (Forsvarets forskningsinstitutt) um æfingu Rússa.

Hann minnir á að í október efni NATO til stærstu heræfingar sinnar í 10 ár, Trident Juncture. Rússar vilji einnig sýna að þeir geti efnt til stórra æfinga. Fyrir þeim vaki að sýna að þeir geti flutt mikinn herafla langar vegalengdir, þetta hafi verið þungamiðjan í öllum stóræfingum undanfarin ár.

Þetta sé sérstaklega mikilvægt fyrir Rússa nú á tímum og megi rekja það til skipulagsins á herafla þeirra, fjölda manna og herdeilda undir vopnum. Fækkað hafi í rússneska hernum eftir skipulagsbreytingar á honum árið 2008. Heraflinn sé hins vegar betur þjálfaður nú en þá. Vegna fækkunarinnar skipti meira máli en áður að unnt sé að flytja liðsauka og tæki þangað sem þörf krefst hverju sinni.

Nú senda kínversk stjórnvöld 3.200 menn til þátttöku í æfingunni, 900 hergögn auk 30 flugvéla og þyrlna.

Ekki hefur verið greint frá því hvernig vestur-herstjórnin tengist æfingunni fyrir utan skipin í Norðurflotanum sem eiga heimahafnir í kringum Múrmansk í Norður-Rússlandi.

Tor Bukkvoll bendir á að yfirstjórn æfinga og æfingasvæði færist milli rússnesku hernstjórnarsvæðanna og nú sé komið að austur-herstjórninni. Kínverjar taki þátt í æfingunni til að sýna umheiminum að um þessar mundir standi stjórnir Rússlands og Kína saman á stjórnmálavettvangi.

 

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …