Home / Fréttir / Stærsta flotkví rússneska flotans úr leik

Stærsta flotkví rússneska flotans úr leik

Thomas Nilsen, ritstjóri Barents Observer, tók þessa mynd af risa-flotkvínni með orrustubeitiskipið Pétur mikla um borð.
Thomas Nilsen, ritstjóri Barents Observer, tók þessa mynd af risa-flotkvínni með orrustubeitiskipið Pétur mikla um borð.

Mikið tjón varð á stærstu flotkví rússneska flotans þriðjudaginn 30. október í hafnarbænum Rosljakovo, skammt frá Múrmansk. Vegna vandræða í kvínni af völdum rafmagstruflana varð einnig tjón á eina flugmóðurskipi Rússa, Admiral Kuznetsov.

Unnið var því að flytja flugmóðurskipið úr flotkvínni, segir fréttastofan Interfax,  þegar stór krani féll að þilfar skipsins.

Flugmóðurskipið var dregið til Sevmorput-skipasmíðastöðvarinnar í nágrenni slysstaðarins.

Í fréttum segir að rafmagnsleysi hafi herjað á svæðið undanfarið og þar á meðal á borgirnar Severomorsk og Murmansk. Jafnframt berast reglulega fréttir af vandræðum í flotkvínni þar sem allur tækjakostur er kominn við aldur, þar á meðal rafmagnskerfið.

Ekki er unnt að taka skip rússneska flotans á borð við Admiral Kuznetsov og orrustubeitiskipið Pjotr Velikíj (Pétur mikla) í slipp annars staðar en í þessari stærstu flotkví Rússlands. Hún er 330 m löng og smíðuð árið 1980 í Svíþjóð. Nokkrum árum síðar keypti Sovétstjórnin hana og flutti á Kóla-flóa.

Um 60 manns voru í kvínni þegar hún tók að sökkva. Einn maður týndi lífi og fjórir meiddust. Lögreglurannsókn er hafin á því sem gerðist, segir Interfax.

Undanfarið hefur verið unnið að endurnýjun á tækjakosti um borð í Admiral Kuznetsov auk þess sem allur 305 langur skrokkur skipsins hefur verið yfirfarinn. Skipið var tekið í notkun árið 1990 og síðast var það fært í betra horf á árunum 1996 til 1998.

 

Heimild: BarentsObserver

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …