Home / Fréttir / Staðfesta náið varnarsamstarf Finna og Svía

Staðfesta náið varnarsamstarf Finna og Svía

Varnarmálaráðherrarnir Pål Jonson Svíþjóð og Antti Kaikkonen Finnlandi á blaðamannafundi í Helsinski 24. október 2022.

Pål Jonson, nýr varnarmálaráðherra Svíþjóðar, fór til Helsinki í fyrstu ráðherraferð sinni til útlanda mánudaginn 24. október og lagði þunga áherslu á að varnarsamstarf Svía við Finna breyttist ekki við stjórnarskiptin í Svíþjóð.

Hann sagði að Svíar mætu mjög mikils djúpstæða varnarsamvinnu sína við Finna og í því efni yrði engin breyting undir sinni stjórn. Samskipti landanna væru reist á gagnkvæmu trausti.

Þessi orð féllu á sameiginlegum blaðamannafundi hans með Antti Kaikkonen, varmarmálaráðherra Finna.

Kaikkonen sagði að Svíar væru nú og til framtíðar nánustu samstarfsmenn Finna. Í báðum löndum væri aðildin að NATO forgangsmál hjá þeim sem stjórnuðu vörnum þeirra. Jonson tók undir þá skoðun og sagði að samleið þjóðanna inn í bandalagið skipti miklu bæði hernaðarlega og stjórnmálalega.

Jonson sagði að við aðildina að NATO dýpkaði varnarsamstarf ríkjanna enn frekar og yrði auðveldara í framkvæmd. Hugsanlega mundu þau standa einhvers staðar sameiginlega að NATO-herstöð.

Fyrir utan að ræða tvíhliða samstarf sitt í varnarmálum sérstaklega ræddu þeir einnig samvinnu við Norðmenn og Bandaríkjamenn fyrir utan NATO-málefni almennt. Þá bar innrás Rússa í Úkraínu að sjálfsögðu hátt í viðræðum þeirra.

Nú hafa 28 af 30 aðildarríkjum NATO samþykkt aðild Finna og Svía að bandalaginu. Aðeins Tyrkir og Ungverjar eru enn með málið til umræðu í stjórnkerfum sínum.

Finnska fréttastofan STT sagði frá því sunnudaginn 23. október, og vitnaði til bandarísku vefsíðunnar Politico, að Ungverjar mundu samþykkja umsóknir landanna um miðjan desember.

Þriðjudaginn 25. október fer finnsk sendinefnd til Tyrklands til að ræða um aðildarmálið við fulltrúa stjórnvalda.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …