Home / Fréttir / Spurt hvort Pútin sé með á nótunum eftir kjarnorkuútspilið

Spurt hvort Pútin sé með á nótunum eftir kjarnorkuútspilið

Vladimir Pútin hótar með kjarnorkuvopnum 26. fenbrúar 2022. Við neðri borðsendann sitja Sergei Shoigu varnarmálaráðherra og Valery Gerasimov herráðsforingi.

Flemming Splidsboel Hansen, sérfræðingur við Dansk Institut for Internationale Studier (DIIS), Dönsku utanríkismálastofnunina, segir í Jyllands-Posten mánudaginn 28. febrúar að auðvitað verði að taka hótun Rússa um beitingu kjarnorkuvopna alvarlega en hins verði menn að ætla að enn ráði skynsemi gjörðum manna í Kreml.

Á fjórða degi innrásar Rússa halda úkraínskir hermenn rússneska hernum enn utan Kharkiv í austurhluta Úkraínu, næst stærstu borg landsins, 30 km frá landamærum Rússlands.

Sunnudaginn 26. febrúar hafði Vladimir Pútin Rússlandsforseti í heitingum með kjarnavopnum. Þann sama dag bauðst Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti til að hitta fulltrúa Rússa til viðræðna á landamærum Hvíta-Rússlands.

Til að fá skýringar á atburðarás helgarinnar sneri Jyllands-Posten sér til Flemmings Splidsboels Hansens hjá DIIS sem í mörg ár hefur fylgst með stjórnmálum í Rússlandi og Úkraínu. Hann segir í blaðinu:

„Þetta bendir til þess að Rússar séu að tapa stríðinu. Að þeim takist ekki einu sinni að ná valdi í einni borg, skammt frá rússnesku landamærum Rússlands, sýnir að rússneski herinn á í vandræðum. Rússar töldu líklegt að þeir gætu náð Úkraínu með leiftursókn en þar var greinilega um draumsýn að ræða. Strax á öðrum degi létu Rússar í ljós áhuga á samningum og á fjórða degi hafa þeir tilnefnt viðræðunefnd. Pútin reynir að bjarga því sem bjargað verður.

Í því felst nokkur þverstæða að segjast tilbúinn til viðræðna svona fljótt þegar rökin fyrir innrás Rússa í Úkraínu voru að ætlunin væri að afvopna og fella „stjórn nazista“ eins og Pútin kallaði kjörna leiðtoga Úkraínu. Nú, skömmu síðar er hann tilbúinn til að semja við þá.“

Eigum við að taka það alvarlega þegar Pútin hótar með kjarnavopnum?

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Pútin hótar með kjarnavopnum. Hann gerði það einnig fyrr í liðinni viku. Nú sat hann að vísu við borð með varnarmálaráðherranum og yfirmanni herráðsins þegar hann gerði það. Við eigum að taka því af mikilli alvöru þegar Pútin hótar með kjarnavopnum en ég held ekki að við eigum að óttast að alvara sé að baki hótuninni. Enn verða menn að ætla að í æðstu stjórn stjórnmálakerfis Rússlands gæti skynsemi. Í vaxandi mæli má heyra vangaveltur um hvort Pútin sé alveg með á nótunum.“

Heldur þú að Pútin hafi truflast, eins og menn velta fyrir sér?

„Svo virðist sem hann taki þetta mjög persónulega. Á mánudaginn [fyrir viku] þegar ég hlustaði á hann sá ég að ræðan kom beint að innan. Pútin er venjulega mjög kaldur og hefur mikla stjórn á tilfinningum sínum. Að þessu sinni var eins og þetta kæmi beint að innan. Mér þótti það mikil nýlunda og ef til vill hefur þetta haft einhver áhrif á töku ákvarðana hans og kann að einhverju leyti að skýra hvers vegna ráðist var inn í Úkraínu. Við blasir að snerti þetta tilfinningar Pútins þá er erfitt að segja nákvæmlega hvað getur gerst. Við greiningar eins og ég stunda er litið til raka og skynsemi.“

Er það þín skoðun að á þessari stundu geti Rússar ekki lagt Úkraínu undir sig?

„Eins og málum er nú háttað glíma Rússar við mikinn vanda vegna birgða og aðflutninga. Það er erfitt fyrir Rússa að flytja eldneyti og matvæli inn í landið hitt er ljóst að Rússar hafa hernaðarlega yfirburði og geta auðvitað unnið stríðið. Auðvitað geta þeir lagt Kyív undir sig en þó ekki án þess að beita miklu afli. Það hefði jafnframt miklar afleiðingar fyrir Rússa. Það kynni að valda ólgu innan Rússlands, það mundi spilla sambandi þeirra við Vestrið. Unnt er að leggja undir sig land þrátt fyrir mjög mikla andspyrnu. Það er unnt að tapa stríði á margan hátt,“ segir Flemming Splidsboel Hansen í lok viðtalsins við Jyllands-Posten.

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …