Home / Fréttir / Spurningalisti sérstaks saksóknara til Trumps birtur

Spurningalisti sérstaks saksóknara til Trumps birtur

 

Robert S. Mueller, sérstakur saksóknari.
Robert S. Mueller, sérstakur saksóknari.

Robert S. Mueller, sérstakur saksóknari vegna afskipta Rússa af bandarísku forsetakosningunum árið 2016, hefur sent lögfræðingum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta tæplega 50 spurningar um fjölmörg atriði sem snerta tengsl Trumps við Rússland og til að komast að raun um hvort forsetinn hafi reynt að bregða fæti fyrir rannsóknina sjálfa. The New York Times (NYT) birti spurningarnar þriðjudaginn 1. maí. Hér verður vitnað í frétt blaðsins um málið.

Með spurningunum virðist reynt að kanna hvað býr að baki því sem forsetinn hefur sagt um málið meðal annars með sókndjörfum færslum á Twitter og einnig er leitað upplýsinga sem gætu varpað ljósi á tengsl forsetans við fjölskyldu sína og nánustu ráðgjafa. Leitað er upplýsinga sem snerta brottrekstur James Comeys, forstjóra alríkislögreglunnar, FBI, og fyrsta þjóðaröryggisráðgjafa forsetans, Michaels Flynns, framkomu forsetans við Jeff Sessions dómsmálaráðherra og fund í Trump-turninum í New York árið 2016 þar sem fulltrúar kosningastjórnar Trumps ræddu við Rússa sem buðu þeim óhróður um Hillary Clinton, keppinaut Trumps um forsetaembættið.

Þá snúast spurningarnar einnig um viðskipti forsetans, hvort hann hafi rætt við Michael D. Cohen, einkalögfræðing sinn til margra ára, um fasteignakaup í Moskvu; hvort forsetinn hafi vitað um nokkra tilraun af hálfu tengdasonar síns, Jared Kushners, til að koma á hliðarsambandi við Rússa á milli kjördags og þar til Trump var settur í embætti forseta; hvort hann hafi átt nokkur samskipti við Roger J. Stone Jr., ráðgjafa sinn til langs tíma, sem sagðist búa yfir trúnaðarupplýsingum um tölvuárásir demókrata; og hvað gerðist þegar Trump fór til Moskvu árið 2013 vegna Miss Universe fegurðarsamkeppninnar.

Trump sagði á Twitter þriðjudaginn 1. maí að það væri „smánarlegt“ að spurningar sem sérstaki saksóknarinn vildi leggja fyrir sig hefðu birst opinberlega. Hann tók fram, án þess að það væri rétt hjá honum, að ekki væri neitt spurt um leynimakk við Rússa. Forsetinn sagði einnig að leynimakk væri „gervi“ glæpur.

Jay Sekulow, lögfræðingur Trumps, vildi ekkert segja eftir að spurningalistinn var kominn til NYT. Þá svaraði talsmaður sérstaka saksóknarans ekki tilmælum blaðsins um álit á stöðu málsins.

Mánuðum saman hefur sérstaki saksóknarinn óskað eftir að leggja spurningar fyrir forsetann. Trump hefur fyrir sitt leyti stundum látið í ljós áhuga á að svara spurningum saksóknarans og séð það sem leið til að binda á skjótan hátt enda á rannsóknina. Lögfræðingar forsetans hafa leitað eftir samkomulagi um hvernig að samtali við forsetann yrði staðið. Sagt er að þeir vilji tryggja stöðu skjólstæðings sem best enda er hann þekktur fyrir að taka of mikið upp í sig, beita fyrir sig hálfsannleika og hreinum blekkingum. Þeir vilja koma í fyrir rangar staðhæfingar forsetans eða að hann tapi beinlínis þræðinum. Fjórir einstaklingar, þar á meðal Flynn, hafa játað sig seka um að hafa logið að þeim sem rannsaka þátt Rússa.

Spurningalistinn varð til í viðræðum fulltrúa sérstaks saksóknara og lögfræðinga forsetans. Robert S. Mueller hafnaði ósk lögfræðinga Trumps um að hann svaraði aðeins skriflegum spurningum. Snemma í mars 2018 sagði hann lögfræðingunum að hann yrði að ræða við forsetann og spyrja hann milliliðalaust til að ákvarða hvort um ásetningsbrot hefði verið að ræða þegar hann rak Comey.

Lögfræðingurinn sem tók við spurningalistanum ráðlagði forsetanum að ræða ekki við sérstaka saksóknarann. Forsetinn sagðist ætla að gera það og þá sagði lögfræðingurinn af sér.

Rudolph W. Giuliani, fyrrv. borgarstjóri í New York og saksóknari, tók þá við sem lögfræðingur Trumps. Hann hitti Mueller í fyrri viku og sagðist vilja kanna hvort sérstaki saksóknarinn og menn hans væru „í raun hlutlægir“.

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …