Home / Fréttir / Spunaliðar í þágu Rússa segja heimselítu-andstæðinga Brexit vilja stríð innan ESB

Spunaliðar í þágu Rússa segja heimselítu-andstæðinga Brexit vilja stríð innan ESB

 

Kreml
Kreml

 

Theresa May tók við sem forsætisráðherra Bretlands miðvikudaginn 13. júlí af David Cameron sem sagði af sér eftir að úrsagnarsinnar sigruðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni um úrsögn Breta úr ESB (Brexit) 23. júní. May var aðildarsinni eins og Cameron enda innanríkisráðherra í stjórn hans. Það kemur hins vegar í hlut hennar að vinna að framgangi ákvörðunar meirihluta bresku þjóðarinnar.

Náið er fylgst með hræringum í samskiptum  Breta og ESB í Rússlandi og af vinum Kremlverja í fjölmiðlun á netinu. Áróðursgreiningardeild ESB (EEAS East StratCom Task Force) birti í vikunni stutt yfirlit boðskap spunaliða Kremlverja. Hér er vitnað til þess.

Nikolai Starikov er einn helsti áróðursmaður Kremlverja. Hann er annar forystumanna Anitmaidan-hreyfingarinnar, það er hreyfingar gegn stjórnvöldum í Úkraínu. Starikov gerði myndband um Brexit. Þar segir hann að þjóðaratkvæðagreiðslan hafi verið sviðsett: í stað þess að hefja stríð í Rússlandi eða Kína vilji elíta heimsins nú hefja stríð innan Evrópusambandsins. Þetta sé vegna þess að eigendur heimsauðsins geti ekki haldið uppi háum lífskjörum á slíku risasvæði, hún muni einbeita sér að því að tryggja svo há lifskjör í Bandaríkjunum, Bretlandi og Sviss; annars staðar verði séð til þess að ríki upplausn og stríð.

Starikov hefur skrifað á annan tug bóka og er jafnframt forstjóri útibús Pervyi Kanal sjónvarpsstöðvarinnar í St. Pétursborg. Hann er þar með í hópi stjórnenda einnar mikilvægustu ríkissjónvarpsstöðvarinnar í Rússlandi.

Þá má nefna að á vefsíðunni LifeNews var því haldið fram að öllum ríkjum Austur-Evrópu yrði vísað úr ESB vegna Brexit. Í grein á thesaker.is (takið eftir að lén síðunnar er á Íslandi) sagði að það kæmi til „litar-byltingar“ á Bretlandi að undirlagi glóbalista og Soros gegn Brexit. Á síðunni segir að skipulega sé vegið að pundinu og verulegur sálrænn þrýstingur sé frá samtökum „siðmenntaða fólksins“ til að stöðva Brexit. CIA og elíta frjálslyndra standi straum af lygaáróðri til að koma í veg fyrir Brexit. Háð sér blendings-stjórnmálastríð gegn meirihluta Breta.

Hugmyndaflugið var jafnvel enn meira á vefsíðunni saqinform.ge í Georgíu sem styður málstað Kremlverja. Þar segir að Engilsaxar hafi hafnað að verða „Engilsex“ til að þjóna gildum hinsegin fólks (LGBT-fólks) í „gömlu gleðikonu Evrópu“ og vegna Brexit muni fleiri þjóðir ákveða að fara úr ESB og ein af annarri gerast þátttakendur í Stóra Evró-Asíusambandinu. Þetta hefði fengist staðfest af heimild „nærri Bilderberg-hópnum“.

Fimm dögum síðar sagði á sömu síðu að Angela Merkel Þýskalandskanslari hefði kallað saman fund í svissnesku Ölpunum. Þangað hefðu leiðtogar Frakkands, Ítalíu og Hollands komið. Þeir voru sagðir hafa rætt framtíð „Stóra Evró-Asíu“ verkefnisins og í því ferli muni Evrópuríkin stig af stigi taka að viðurkenna Krím.

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …