Home / Fréttir / Sprengingar í rússneskum flugherstöðvum

Sprengingar í rússneskum flugherstöðvum

Kortið sýnir staði i nagrenni við flugherstöðvarnar.

Í frétt BBC mánudaginn 5. desember segir að nokkrir hafi týnt lífi í sprengingum á tveimur herflugvöllum í Rússlandi.

Rússneskir ríkismiðlar segja að eldsneytisvél hafi sprungið á flugvelli nálægt borginni Rjazan fyrir suð-austan Moskvu, Þrír hafi farist og sex slasast.

Þá hafi tveir slasast í sprengingu á flugvelli á Saratov-svæðinu.

Óvíst er um tildrög sprenginganna að sögn BBC. Vellirnir séu báðir í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð frá landamærum Úkraínu.

Talið er að á Engels-flugvelli i Saratov-héraði sé heimastöð langdrægra rússneskra sprengjuvéla. Þaðan eru 600 km til Úkraínu.

Fréttaritari BBC í Rússlandi segir að sprengingarnar veki grunsemdir um að Úkraínumenn standi að baki þeim. Engin staðfesting liggur fyrir um það en Mykhajlo Podoljak, ráðgjafi Úkraínuforseta, kann að vitna til sprenginganna þegar hann segir á Twitter: „Sé einhverju skotið inn í lofthelgi annars ríkis snúa óþekktir fljúgandi hlutir fyrr eða síðar aftur til brottfarerstaðarins.“

Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefur fengið skýrslu um sprengingarnar segir Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja.

Á norsku vefsíðunni BarentsObserver er mánudaginn 5. desember bent á að Tu-95 og Tu-160 sprengjuvélar fljúgi oft utan norskrar lofthelgi.

Vitnað í vefsíðuna Saratov-Version, staðarmiðil við Engels-flugherstöðina sem segir að tvær Tu-95 sprengjuvélar hafi laskast að morgni mánudagsins þegar gerð var drónaárás að mati sjónarvotta. Þeir segja að lögregla hafi lokað vegum við herstöðina.

BarentsObserver segir að Tu-95 og Tu-160 sprengjuvélar sem fljúgi yfir Barentshaf og Noregshaf komi venjulega frá Engels-flugvelli.

Þá segir að óstaðfestar fréttir hermi að um hádegisbil mánudaginn 5. desember hafi nokkrar Tu-95 sprengjuvélar tekið á loft frá Engels, líklega til að fá samastað á öðrum flugvöllum.

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …