Home / Fréttir / Sprengjuvélar frá Kólaskaga ráðast á almennna borgara í Úkraínu

Sprengjuvélar frá Kólaskaga ráðast á almennna borgara í Úkraínu

Rússneskar sprengjuvélar frá Kólaskaganum við austurlandamæri Noregs í hánorðri gegna lykilhlutverki í sprengjuárásum Rússa í Úkraínu. Árásunum er líkt við hryðjuverk gegn almennum borgurum í vestrænum fjölmiðlum.

Nokkrar langdrægar sprengjuvélar af gerðinni Tu-95MS fóru aðfaranótt föstudagsins 29. desember frá Oelnja-flugherstöðinni á Kólaskaga og sendu fáeinum klukkustundum síðar banvænan farm sinn á borgaraleg skotmörk í Úkraínu.

Klukkan 02.30 aðfaranótt föstudagsins 29. desember birti flugher Úkraínu viðvörun um að búast mætti við árás frá rússneskum sprengjuvélum. Var almenningur hvattur til þess að sýna aðgæslu. Í tilkynningu flughersins snemma að morgni 29. desember sagði:

„Viðvörun! Níu Tu-95MS flugvélar hófu sig á loft frá Olenja-flugvelli (í Murmanskhéraði). Komi til hættu vegna flugskeyta og stýriflauga verður það tilkynnt. Fylgist með loftvarnaflautum!“

Árás vélanna úr norðri var liður í stærstu árás Rússa á almenna borgara í Úkraínu frá upphafsaðgerðunum þegar innrásin hófst 24. febrúar 2022.

Rússar sendu flaugar sínar á fæðingardeildir, skólabyggingar, verslunarmiðstöðvar, fjölbýlishúsahverfi og önnur íbúðahverfi, vörugeymslur og bílastæði. Ráðist var á borgirnar Kyív, Lviv, Odesa, Dnipro, Khariv og Zaporizhzhia auk annarra bæja.

Olenja-flugvöllurinn er skammt frá bænum Olenegorsk á Kólaskaga, þaðan eru aðeins um 150 km að finnsku landamærunum (eins og frá Reykjavík að Skógafossi).

Rússneski flugherinn flutti langdrægar sprengjuvélar til Olenja frá flugvöllum nær Úkraínu fyrr á árinu eftir að Úkraínumenn eyðilögðu vélar á þeim völlum.

Síðan Finnland varð aðildarríki NATO 4. apríl 2023 hafa bandarískar eftirlitsflugvélar nokkrum sinnum verið á ferðinni í lofthelgi norðurhluta landsins og getað fylgst með því sem gerist í Olenja-flugherstöðinni í austri.

 

Heimild: Barents Observer

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …