Home / Fréttir / Sprengjuhótanir vekja reiði og ótta í Bandaríkjunum

Sprengjuhótanir vekja reiði og ótta í Bandaríkjunum

Viðbúnaður lögreglunnar í New York var mikill.
Viðbúnaður lögreglunnar í New York var mikill.

Allir í byggingu Time Warner í New York voru reknir út á götu miðvikudaginn 24. október vegna grunsamlegs pakka. Skömmu áður höfðu öryggisgæslumenn tilkynnt að stöðvaðir hefðu verið pakkar sem stílaðir væru á Obama og Clinton vegna gruns um sprengiefni í þeim. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði síðdegis að allra ráða yrði beitt til að upplýsa málið. Það væri æðsta skylda sín að gæta öryggis borgaranna.

Fyrsti hættuboðinn birtist mánudaginn 22. október, það var pakki stílaður  á marg-milljarðamæringinn George Soros. Hann er Ungverji af gyðingaættum sem búið hefur sinn aldur í Bandaríkjunum og leggur meðal annars vinstrisinnuðum félagasamtökum lið með fjárstyrkjum. Miðvikudaginn 24. október fundust svo tvær sprengjur í viðbót: Önnur var stíluð á heimili Bills og Hillary Clinton í New York-ríki, hin á heimili Baracks Obama í Washington. Síðan var allt í einu gripið til þess ráðs að tæma Time Warner bygginguna við Columbus Circle í New York vegna óþekks pakka sem þar fannst. Í húsinu er meðal annars að finna starfsstöð CNN-sjónvarpsins.

Enn einn dularfulli pakkinn – enn ein sprengja var stíluð á John Brennan, fyrrverandi forstjóra leyniþjónustunnar, CIA. Hann starfar nú sem sérfræðingur fyrir marga fjölmiðla. Fimmta sprengjusendingin leiddi síðan til þess að loka varð skrifstofu þingmanns demókrata, Debbie Wasserman Schultz.

Lögreglan í New York og alríkislögreglan, FBI, telja fullvíst að tengsl séu milli allra þessara morðtilrauna

Á vefsíðu þýska blaðsins Die Welt segir að hafa beri í huga hvað þarna búi að baki: Allir hægri-popúlistar í heiminum hati George Soros og sama megi segja um harðasta kjarna stuðningsmanna Donalds Trumps. Róttækir hægrimenn í Bandaríkjunum líti á Clinton-hjónin og Barack Obama sem óvini Bandaríkjanna. „Í netheimum hefur lengi verið orðrómur um að Hillary Clinton sé tengd sölu á ungum kynlífsþrælum,“ segir í Die Welt.

Þá bendir blaðið á að John Brennan sé harður gagnrýnandi Donalds Trumps og stuðningsmenn forsetans líti á hann sem fulltrúa deep state höfuðóvins Trumps. Debbie Wasserman Schultz sé vinkona Hillary Clinton. Stuðningsmenn Trumps telji CNN miðstöð lyga sem miði að því að fella réttkjörinn forseta Bandaríkjanna.

Die Welt segir að í Hvíta húsinu vilji menn áreiðanlega ekki verða tengdir við þessar sprengjuhótanir og blaðið spyr „Hljóma þeir trúverðugir?“ Donald Trump hafi hvað eftir annað sagt CNN og starfsmenn sjónvarpsstöðvarinnar: „Óvini bandarísku þjóðarinnar.“ Hann hafi á fundi með þúsundum stuðningsmanna sinna lýst Greg Gianforte sem „mínum manni“. Gianforte þingmaður frá Montana réðst á blaðamann frá The Guardian og hratt honum í gólfið af því að honum líkaði ekki spurningar hans. Gianforte neyddist til að biðjast opinberlega afsökunar en Trump lýsti ánægju með framgöngu hans gagnvart blaðamanninum.

Þýska blaðið segir að morðhótunum í garð blaðamanna hafi fjölgað frá því að Trump komst til valda. Til þessa sé frægasta dæmið að 68 ára gamall karl, Robert Chain, hringdi hvað eftir annað í dagblaðið Boston Globe eftir að það birti leiðara þar sem mótmælt var fullyrðingum Trumps að blaðamenn væru óvinir fólksins, þeir sæktu rétt sinn í bandarísku stjórnarskrárinnar.

Frá 10. til 22. ágúst í ár hringdi Chain oftar en þúsund sinnum til Boston Globe og hótaði að skjóta blaðamenn. Lögreglan fann 20 vopn og mikið af skotfærum heima hjá honum. Nokkrum mánuðum áður ruddist vopnaður maður inn á ritstjórnarskrifstofur staðarblaðs í Annapolis í Maryland-ríki og myrti fimm blaðamenn.

Die Welt telur ástæðu til að hafa sérstakt auga með morðhótunum í garð blaðamanna af gyðingaættum. Stuðningsmenn Trumps einkenni þá á Twitter. Þetta mátti Julia Ioffe reyna eftir að hún skrifaði grein um Meliönu Trump í ritið GQ. Bálreiður aðdáandi Trumps sendi Juliu Ioffe myndir sem sýndi hana í fangabúðum merkta með gulri gyðingastjörnu. Forsetafrúin brást við þessu í viðtali með þeim orðum að Julia Ioffe hefði sjálf kallað þetta yfir sig.

Bret Stephens, íhaldssamur dálkahöfundur við The New York Times, vitnaði í rasískan símhringjanda sem hótaði að skjóta hann með hálf-sjálfvirkri byssu. Bret Stephens lýsti skömmum forsetans í garð fjölmiðla sem „hatursáróðri“. Hann varaði við því að ef til vill liti einhver aðdáandi Trumps á þetta sem hvatningu. „Sá dagur nálgast,“ skrifaði Stephens „þegar blóð á gólfi ritstjórnarskrifstofu festist við hendur forsetans.“

 

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …