Home / Fréttir / Sprengja Í Odesa skammt frá gríska forsætisráðherranum og Úkraínuforseta

Sprengja Í Odesa skammt frá gríska forsætisráðherranum og Úkraínuforseta

Gríski forsætisráðherrann og Úkraínuforseti á blaðamannafundinum í Odesa 6. mars 2024.

Sprenging varð í úkraínsku hafnarborginni Odesa miðvikudaginn 6. mars þegar Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti og Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, voru þar á háleynilegri ferð.

Á vefsíðunni POLITICO er sagt frá því að flugskeyti Rússa hafi valdið sprengingunni í nokkur hundruð metra fjarlægð frá bílalest fyrirmannanna. Vísar vefsíðan til grísks embættismanns sem heimildarmanns. Enginn úr grísku sendinefndinni særðist.

Í fréttinni segir að forsetinn og forsætisráðherrann hafi fundað eins og ráðgert var. Gríski ráðherrann er í Odesa til að sýna stuðning við Úkraínumenn í verki.

Á sameiginlegum blaðamannafundi eftir fundinn lýsti Mitsotakis því sem gerðist þegar sprengjan sprakk þegar þeir voru við höfnina í Odesa.

„Við heyrðum loftvarnasírenur en höfðum ekki tök á að leita skjóls. Skömmu síðar þegar við sátum í bílum okkar heyrðum við mikla sprengingu,“ sagði forsætisráðherrann „það minnti okkur rækilega á að hér ríkir raunverulegt stríðsástand. Ætti þetta í raun að hvetja alla evrópska leiðtoga til að koma til Úkraínu. Eitt er að heyra lýsingar í fjölmiðlum eða frá Zelenskíj forseta og allt annað að kynnast stríðinu af eigin raun.“

Zelenskíj sagði á fundinum að þá væri ekki vitað nákvæmlega um afleiðingar sprengingarinnar en einhverjir hefðu dáið og aðrir særst.

„Eins og þið sjáið er þeim [Rússum] sama á hvern þeir skjóta, hvort sem hermenn eða alþjóðlegir gestir eru í borginni. Þeir hafa annaðhvort algjörlega tapað glórunni eða þeir hafa ekki lengur neina stjórn á því sem herinn gerir. Þess vegna skortir okkur vernd. Loftvarnir koma að mestum notum,“ sagði forsetinn.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …