Home / Fréttir / Sprenging á helstu samgönguæð Rússa til Kína

Sprenging á helstu samgönguæð Rússa til Kína

Baklal-Amur-járnbrautin er ein heksta samgönguæðin milli Rússlands og Kína. Hér sést hvernig hún liggur frá Moskvu austur á bóginn.

Fréttir frá Úkraínu herma að sprenging um borð í flutninaglest hafi fimmtudaginn 29. nóvember lokað mikilvægri járnbrautaleið milli Rússland og Kína. Severomujskij-göngin eru hluti Bajkal-Amur-brautarinnar (BAM), helstu járnbrautaleiðar milli landanna.

Í fjölmiðlunum RBC-Ukraína og Ukraínska Pravda er fullyrt að öryggislögregla Úkraínu standi að baki skemmdarverkinu.

„Með þessu hefur eina viðunandi lestartengingin milli Rússlands og Kína lamast,“ segja heimildarmenn við RBC-Ukraine.

Severomujskij-göngin eru 15 km löng og lengstu jarðgöng Rússlands. Þau eru í rússneska lýðveldinu Burjatia sem er á suðurmörkum Síberíu og liggur að Mongólíu.

Hafist var handa við að leggja þessa járnbraut á fjórða áratugnum og var ekki lokið við lagninguna fyrr en 1991. Nú eru brautin notuð til vöruflutninga til Asíu og liggur um Síberíu og eru 21 göng á næstum 4.300 km lengd teinanna. Samtals eru göngin 47 km löng.

Það hefur verið Vladimir Pútin Rússlandsforseta kappsmál að nútímavæða rússneska járnbrautarkerfið, þar á meðal BAM-brautina, til að nýta mætti það sem best til að flytja varning milli Evrópu og Kína. Fyrir utan að tryggja samgöngur þvert yfir risavaxið Rússland.

Fréttir hafa verið um að leiðin og lestirnar hafi verið notaðar til hergagnaflutninga vegna Úkraínustríðsins.

Á rússnesku samfélagssíðunni Telegram segir Baza, sem tengist rússnesku öryggislögreglunni (FSB), að kviknað hafi í eldsneytistanki þegar farið var með hann um göngin snemma morguns fimmtudaginn 29. nóvember. Engin slys hafi orðið á mönnum.

„Þetta er að líkindum skemmdarverk. Enn er ekki vitað hvers vegna eldurinn kviknaði. Lögregla og FSB-menn eru á staðnum og einnig á þeim stað þar sem vagninn var geymdur,“ segir Baza.

Í Ukraínsku Prövdu er haft eftir heimildarmönnum að fjórar sprengjur hafi sprungið á meðan flutninglestin var á ferð um göngin og FSB-menn og starfsmenn járnbrautanna reyni að minnka skaðann af þessari „sérstöku aðgerð“ öryggislögreglu Úkraínu (SBU).

Stjórnendur rússneska járnbrautakerfisins segja að vegna atviksins í göngunum hafi orðið að nýta aðra lestarteina sem hjáleið. Það lengi ferðalagið en ekki svo neinu nemi.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …