Home / Fréttir / Sprengdi borgir í Sýrlandi – nú nýr herstjóri Rússa í Úkraínu

Sprengdi borgir í Sýrlandi – nú nýr herstjóri Rússa í Úkraínu

Rússneski hershöfðinginn Alexander Dvornikov.

Rússneskur hershöfðingi, Alexander Dvornikov, sem er frægur fyrir að hafa jafnað borgir og bæi í Sýrlandi við jörðu hefur verið skipaður yfirmaður rússneska hersins í Úkraínu. Hann er grunaður um að hafa hafið feril sinn þar með fyrirmælum um árás á járnbrautarstöð föstudaginn 8. apríl þar sem um 50 almennir borgarar féllu í valinn. BBC skýrði fyrst frá þessum breytingum á yfirstjórn rússneska innrásarliðsins aðfaranótt laugardags 9. apríl.

Alexander Dvornikov er í hópi hershöfðingja sem Vladimir Pútin Rússlandsforseti metur mest. Honum hefur nú verið falið að endurskipuleggja aðgerðir hersins í Úkraínu þar sem hann er í ógöngum. Óttast er að hann gefi fyrirmæli um enn meira blóðbað í Donbas-héraði.

Á vefsíðunni The Telegraph segir Harry Kazianis, herfræðingur við Centre for the National Interest í Bandaríkjunum, að það sé hættulegt merki um að Pútin ætli ekki í bráð að láta af hernaði í Úkraínu að Dvornikov hafi verið valinn til að leiða herinn. Markmið Rússa kunni enn að vera að ná stærstum hluta Austur-Úkraínu, ef ekki öllum landshlutanum, undir sig.

Bandaríski herfræðingurinn segir að Dvornikov sé snjall herstjórnandi og skipuleggjandi sem muni beita umsátri til að ná markmiðum sínum eins og hann gerði í Sýrlandi. Segist Kazianis óttast að fyrirmælin til Dvornikovs séu á þann veg að nái hann ekki Austur-Úkraínu á sitt vald breyti hann landshlutanum í risavaxna eftirmynd af borginni Aleppo í Sýrlandi sem Rússar sprengdu og lögðu í rúst.

Sama dag og skipun nýja hershöfðingjans var sögð hafa tekið gildi, 8. apríl, féllu að minnsta kosti 52 almennir borgarar og meira en 100 særðust í rússneskri skotflaugaárás á járnbrautarstöð í bænum Kramatorsk þar sem fjöldi manns var saman kominn í von um að geta flúið með lest frá Donbas-héraði. Sjónarvottar segja að margar konur og börn hafi verið í hópi þeirra sem týndu lífi. Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði þetta „enn einn stríðsglæp Rússa“. Rússnesk yfirvöld neituðu hins vegar aðild að ódæðisverkinu sem þótti bera öll merki handbragðs Dvornikovs hershöfðingja. Hann stjórnaði árásunum á Aleppo árin 2015 og 2016 sem urðu þúsundum manna að bana.

„Þarna var beitt sömu árásar-aðferð og í Aleppo,“ sagði herfræðingur í Moskvu sem vildi ekki að nafn sitt birtist. „Dvornikov er þekktur fyrir að svífast einskis og hann mun nú beita aðferðum frá Sýrlandi í Úkraínu. Hann var í Tsjetsjeníu fyrir 20 árum. Aðferðin snýst um að frelsa borgir með því að breyta þeim í rústir.“

Í The Telegraph laugardaginn 9. apríl er minnt á að Pútin ætlaði að vinna skjótan sigur í Úkraínu, her Rússa hafi hins vegar mætt meiri andspyrnu af hálfu Úkraínumanna en vænst var og nú sex vikum eftir að innrásin hófst hafi Rússar misst þúsundir manna. Pútin hefur nú skipað liði sínu að hörfa frá höfuðborginni Kyív og einbeita sér að því að ná Donbas-héraði.

Vestrænar njósnastofnanir segja að ein skýringanna á vandræðum rússneska hersins í Úkraínu sé flókin yfirstjórn og óskýrar boðleiðir vegna þess að um þrískipta ábyrgð hafi verið að ræða í æðstu röðum hersins.

Pútin vonar að með því að fela Dvornikov að hafa alla þræðina í hendi sér aukist agi og þungi við framkvæmd aðgerða. Til þessa stýrði Dvornikov hersveitunum sem réðust inn í Úkraínu úr suðri frá Krímskaga – þykir þeim hafa gengið betur að ná markmiðum sínum en herjum sem koma úr norðri og austri.

Alexander Dvornikov er 60 ára, alvörugefinn með fölblá augu. Hvar sem hann fer ber hann með sér allt sem talið er prýða rússneskan herforingja. Hann er best þekktur fyrir að hafa stjórnað upphaflegum herleiðangri Rússa í Sýrlandi árið 2015. Þungamiðja þeirrar sóknar voru grimmdarlegar sprengjuárásir sem felldu að talið er um 2.000 almenna borgara, meðal látinna voru 200 börn.

Þegar fréttist af skipun Dvornikovs sagði hópur, Syrian Revolution Network, tengdur Vesturlöndum í uppreisnarliðinu í Sýrlandi:

„Þar sem allt hefur mistekist til þessa í Úkraínu, nema stríðsglæpaverkin, hefur Pútin skipað nýjan yfirmann, Alexander Dvornikov, með mikla reynslu af að fremja svívirðileg þjóðarmorð á varnarlausum borgurum í Sýrlandi.“

Í þá sex mánuði sem Dvornikov stjórnaði hernaði Rússa til stuðnings Bashar al-Assad Sýrlandsforseta gerði rússneski flugherinn 9.000 sprengjuárásir og eyðilagði stóran hluta borganna Aleppo og Homs auk minni bæja.

Í orðspori hershöfðingjans felst að hann hafi átt þátt í að móta og framkvæma rússneska hernaðarstefnu í Sýrlandi sem miðaði að því að lama baráttuvilja almennings í umsetnum borgum með markvissum árásum á grunnvirki daglegs lífs eins og bakarí, sjúkrahús og vatnsveitur.

Þetta var árangursríkt fyrir Rússa og Assad-stjórnina. Honum tókst að hrekja uppreisnarmenn sem nutu stuðnings Vesturlanda og öfgamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams á brott og sölsa þannig mikil landsvæði undir Assad auk þess að ávinna sér virðingu Pútins sem sæmdi Dvornikov æðsta heiðursmerki rússneska hersins sem hetju Rússlands þegar hann sneri til Moskvu frá Sýrlandi.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …