
Evrópuráðsþingið sendi í október 2013 nefnd manna frá 20 löndum úr þingflokkum sínum í Strassborg til að sinna eftirliti með forsetakosningunum í Aserbajdsjan. Þeir fylgdust með því þegart Ihram Alijev, sitjandi forseti, hlaut endurkjör til fimm ára með 85% atkvæða.
Ilham Alijev er sonur Heydars Alijevs, sem einnig var forseti í landinu. Alijev-ættin hefur setið við völd í Aserbajdsjan nær samfellt í 40 ár, frá því að Leonid Bresjnev var leiðtogi Sovétríkjanna.
Niðurstaða eftirlitsnefndar Evrópuráðsþingsins (PACE) var einkar vinsamleg: „Í heild höfum við orðið vitni að frjálsum, heiðarlegum og gagnsæjum kosningum.“
Nefndin tók sérstaklega fram að af hálfu Evrópumanna væri ekkert sérstaklega athugavert við stjórn þessa landfræðilega mikilvæga olíulands: „Við komum ekki til Aserbajdsjan til að prédika eða mæla hraða lýðræðislegu þróunarinnar,“ segja Evrópuráðsþingmennirnir.
Fulltrúar annarra eftirlits- og mannréttindanefnda sem fóru til Baku, höfuðborgar Aserbajdsjan, til að fylgjast með þessum sömu kosningum eru annarrar skoðunar en þingnefndin.
Í skýrslu heimskunnu samtakanna Freedom House segir að frá tíunda áratugnum hafi alþjóðlegir eftirlitsmenn ekki litið á kosningar í Aserbajdsjan sem frjálsar eða heiðarlegar. Telja samtökin að á árinu 2013 hafi Ilham sem tók við af föður sínum Heydar árið 2003 náð kjöri í þriðja sinn í kosningum þar sem kosningalaga hafi ekki verið gætt og kosningasvindl verið stundað.
Innan Evrópuráðsþingsins lá ekki aðeins fyrir lofsamleg skýrsla um forsetakosningarnar í Aserbajdsjan árið 2013 heldur einnig um þingkosningarnar árin 2010 og 2015. Þá gerðist það mörgum til undrunar í janúar 2013 að Evrópuráðsþingið hafnaði ályktunarskýrslu frá Þjóðverjanum Cristoph Strasser sem beindi athygli að 90 pólitískum föngum í Aserbajdsjan.
Litið er á Evrópuráðið og þing þess sem sérstakan gæslumann mannréttinda en þar sitja 324 þingmenn frá 47 löndum, þar á meðal þrír frá Íslandi. Norðmaðurinn Thorbjørn Jagland hefur verið framkvæmdastjóri Evrópuráðsins frá 2009.
Aserbajdsjan gekk í Evrópuráðið 2001 og síðan hefur nokkur hópur Evrópuráðsþingmanna jafnan sýnt stjórnvöldum í Baku velvild. Með aðstoð þeirra hefur Baku-stjórninni tekist að hindra gagnrýnar ályktanir þingsins.
Hvernig það var gert kann að verða upplýst fyrir rétti á Ítalíu. Þar er nú rekið sakamál gegn þingmanni sem gegnt hefur mikilvægu hlutverki í þágu Baku-stjórnarinnar á Evrópuráðsþinginu.
Luca Volonté sleit pólitískum barnsskóm sínum í UDC, leifunum af valdamiklum flokki kristilegra demókrata á Ítalíu. Flokkurinn varð að engu vegna hneykslismála sem upplýst voru á tíunda áratugnum. Hann situr á ítalska þinginu án þess að mikið fari fyrir honum þar og var gerður að formanni í þingflokki kristilegra demókrata á Evrópuráðsþinginu.
Athygli beindist að Volonté þegar hann gegndi lykilhlutverki við að fella ályktunina um að fordæma pólitískar fangelsanir í Aserbajdsjan.
Þegar rætt er um aðferðir valdamanna í Baku til að afla sér pólitískra vina tala menn um „kavíardiplómatí“ því að engu er til sparað við að veita vestrænum stjórnmálamönnum þetta svarta góðgæti úr Kaspíahafi eða lúxusgistingu á heilsuhótelum auk góðra gjafa frá gullsmiðum og teppasölum.
Annað og meira en kavíar var þó á dagskrá þegar Luca Volonté hitti Elkan Sulejmanov, Evrópuráðsþingmann frá Aserbajdsjan og „helsta hagsmunamiðlara landsins í Evrópu“ að sögn hugveitunnar ESI.
Rannsókn á Ítalíu hefur leitt í ljós að á árinu 2013 tóku að streyma fjármunir frá alls konar erlendum bönkum, þar á meðal Danske Bank í Eistlandi, í sjóðinn Novae Terrae sem Volonté hafði komið á fót í ítalska bænum Saronno.
Corriere della Sera segir að borist hafi 2,5 milljónir evra (280 m. ísl. kr.) í 18 greiðslum á einu ári í sjóðinn áður en grunsemdir vöknuðu innan banka ítalska þingmannsins og fulltrúar hans sneru sér til yfirvalda. Volonté segir að þetta sé greiðsla fyrir ráðgjafastörf. Hefur hann framvísað tveimur bæklingum því til staðfestingar.
Rannsóknarlögreglan á Ítalíu taldi fleira hanga á spýtunni. Brátt beindist athyglin að skýrslunni sem Strasser hafði samið um pólitíska fanga í Aserbajdsjan.
Henni var hafnað með 125 atkvæðum gegn 79 og grunsemdir eru um að Volonté hafi beitt áhrifum sínum og hugsanlega einnig fé til að kaupa menn til að greiða atkvæði gegn ályktuninni.
Málið gegn Volonté var tekið fyrir í Mílanó í febrúar 2017. Dómarinn telur að Volonté kunni að hafa gerst sekur um peningaþvætti vegna viðskipta við aðila í Aserbajdsjan. Vegna þinghelgi sé þó ekki unnt að ákæra hann fyrir að hafa greitt starfsbræðrum sínum fyrir að greiða atkvæði gegn ályktuninni um pólitísku fangana.
Vegna þessa hafa orðið miklar umræður um inntak þinghelginnar á Ítalíu. Í fréttatímaritinu L’Espresso sagði í maí að aldrei hefði verið litið á þinghelgi sem skjól fyrir spillingu.
Hugveitan ESI segir í skýrslu um tengsl Evrópuráðsins við stjórnvöld í Baku að ekki sé unnt að láta við það sitja að rannsaka einn þingmann eða tvo vilji ráðið hreinsa sig af öllum ásökunum og viðhalda trausti í sinn garð.
ESI segir að á vegum ráðsins verði að tilnefna sérlegan, hlutlausan aðila með reynslu af málum sem þessum til að framkvæma alvarlega rannsókn á ásökunum um spillingu af hálfu Aserbajdsjan frá árinu 2001.

Í lok apríl var forseti Evrópuráðsþingsins, Spánverjinn Pedro Agramunt, settur af eftir að frá því var skýrt að hann hafði farið á fund með einræðisherra Sýrlands, Ba shar al-Assad, sem liggur undir grun um fjölmörg alvarleg mannréttindabrot.
Heimild: Jyllands-Posten