Home / Fréttir / Spennan magnast í samskiptum Grikkja og Austurríkismanna

Spennan magnast í samskiptum Grikkja og Austurríkismanna

Flóttamenn á austurrískri brautarstöð.
Flóttamenn á austurrískri brautarstöð.

Um 5.000 manns voru strandaglópar í Idomeni-búðunum við landamæri Grikklands og Makedóníu laugardaginn 27. febrúar eftir að stjórnvöld fjögurra Balkanríkja tilkynntu um fjöldatakamarkanir við móttöku flótta- og farandfólks.

Fólk fór fyrir alvöru að safnast saman við landamærin fyrir nokkrum dögum þegar ríkisstjórn Makedóníu neitaði að hleypa Afgönum inn í landið frá Grikklandi. Einnig voru settar strangari reglur um aðgang Sýrlendinga og Íraka. Ástandið batnaði ekki við að ESB-ríkin Slóvenía og Króatía auk Serbíu og Makedóníu tilkynntu að þau tækju á móti 580 manns á dag.

Lögreglan í Idomeni sagði laugardaginn 27. febrúar að þar væru um 5.500 manns og auk þess um 800 í bráðabirgðabúðum í um 20 km fjarlægð.

Frá því á fimmtudag hafa aðeins 150 manns farið yfir landamæri Grikklands og Makedóníu. Spenna hefur myndast á landamærunum og þar efndu um 400 manns til mótmæla að morgni laugardags 27. febrúar og kröfðust þess að Makedóníumenn hleyptu sér inn í land sitt.

Ákvörðun Balkaríkjanna fjögurra að loka landamærum sínum var tekin um einni viku eftir að Austurríkisstjórn ákvað að taka aðeins við 80 hælisumsóknum á dag.

Austurríkismenn hafa oftar en einu sinni sakað Grikki um að gæta ekki landamæra sinna á viðunandi hátt. Grískir stjórnmálamenn hafa brugðist harkalega við ásökunum og aðgerðum Austurríkismanna. Prokopis Pavlopaoulos Grikklandsforseti sagði laugardaginn 27. febrúar: „Innan ESB geta menn ekki látið sig engu skipta að sumar samstarfsþjóðir okkar virða ekki skyldur sínar.“

Um 200 manns komu saman til mótmæla fyrir utan sendiráð Austurríkis í Aþenu laugardaginn 27. febrúar og hrópuðu mótmæli eins og „Opnið landamærin“ og „Stöðvið stríðið“ í Sýrlandi.

Grísk yfirvöld segjast reyna að skapa þeim sem koma til landsins á bátum frá Tyrklandi húsaskjól á grísku eyjunum þar til lausn hefur fundist á landamæradeilunni. Að morgni laugardagsins komu skip með 437 aðkomumenn til Piraeus, hafnarborgar Aþenu.

Heimild: The Local

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …