
Dróna-árás var gerð á olíuskipið MT Mercer Street undan strönd Óman á Arabíuskaga fimmtudaginn 29. júlí. Zodiac Maritime gerir skipið út en eigandi útgerðarinnar er Eyal Ofer, milljarðamæringur í Ísrael. Breskur öryggisvörður og rúmenskur skipverji féllu í árásinni.
Ísraelsk stjórnvöld saka Íransher um árásina. Bretar og Bandaríkjamenn taka undir þá skoðun.
Íranir sögðu mánudaginn 2. ágúst að þeir myndu svara hvers kyns „ævintýramennsku“ sem andstæðingar sínir kynnu að grípa til vegna árásarinnar. Það væri auk þess rangt að saka Írani um að eiga þar hlut að máli.
Saeed Khatibzadeh, talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins, hvatti Ísraela sunnudaginn 1. ágúst til að „hætta tilhæfulausum ásökunum“ sínum. Samdægurs bárust þau boð frá Washington að árásinni á olíuskipið yrði svarað á „viðeigandi hátt“.
Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta, sagði árásina „markvisst, ólögmætt ásetningsverk“.
Khatibzadeh sagði að Íranir myndu ekki „hika við að verja öryggis- og þjóðarhagsmuni sína og svara hvers kyns ævintýramennsku tafarlaust og af festu“. Hann hafnaði fullyrðingum Breta og Bandaríkjamanna enda væru þær „mótsagnakenndar“. Hefðu þeir „einhverjar sannanir til að styðja þessi innantómu orð“ ættu þeir að „birta þær“. Með „þögn“ sinni styddu þeir „hryðjuverk og skemmdarverk á írönskum flutningaskipum“.
Sendiherra Írans í London, Mohsen Baharvand, var kallaður í breska utanríkisráðuneytið mánudaginn 2. ágúst til að svara fyrir árásina. Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins sagði að Íranir yrðu tafarlaust að hætta aðgerðum sem stofnuðu í hættu alþjóðlegum friði og öryggi. Skip yrðu að hafa leyfi til frjálsra siglinga í samræmi við alþjóðalög.
Í mars sögðu Íranir að þeir áskildu sér allan rétt eftir að þeir sökuðu Ísraela um árás á flutningaskip á Miðjarðarhafi. Í apríl bárust fréttir frá Íran um að íranska flutningaskipið Saviz hefði orðið fyrir „sprengingu“ á Rauðahafi eftir að fjölmiðlar sögðu að Ísraelar hefðu ráðist á skipið.
Þá sagði The New York Times að þetta hefði verið „hefndar-árás“ Ísraela eftir „fyrri árásir Írana á ísraelsk skip“.
Íranir saka Ísraela einnig um skemmdarverk á kjarnorkuverum sínum og morð á nokkrum vísindamanna þeirra.