
Rússar segjast hafa skotið viðvörunarskotum í átt að breskum tundurspilli undan strönd Krímskaga á Svartahafi. Skipið hafi siglt úr rússneskri lögsögu eftir skothríðina. Bresk stjórnvöld segja að ekkert atvik af þessu tagi hafi orðið. Tundurspillirinn hafi verið í lögsögu Úkraínu undan strönd Krímskaga.
Í frétt rússnesku fréttastofunnar Interfax miðvikudaginn 23. júní var haft eftir rússneska varnarmálaráðuneytinu að rússneskt varðskip hefði skotið í átt að breskum tundurspilli stjórnendum hans til viðvörunar. Þá hefði nokkrum sprengjum verið kastað úr SU-24 sprengjuvél nálægt breska tundurspillinum HMS Defender eftir að hann rauf rússneska landhelgi.
Í tilkynningu varnarmálaráðuneytisins sagði að stjórnendur breska herskipsins hefðu fengið boð um að vopnum yrði beitt gegn skipi þeirra færu þeir inn í rússneska landhelgi. Þeir hefðu ekki brugðist við varnaðarorðunum. HMS Defender hefði siglt á brott eftir skothríðina. Ráðuneytið sakaði Breta um að brjóta hafréttarreglur Sameinuðu þjóðanna.
Andmæli Breta
Breska varnarmálaráðuneytið sagði að engum viðvörunarskotum hefði verið skotið í átt að HMS Defender. Skipið hefði verið í lögsögu Úkraínu. Siglt hefði verið með friði á alþjóðlegri siglingaleið.
Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta, sagði við breska þingmenn að hann undraðist ekki fullyrðingar Rússa þetta „gengi svona“ í samskiptum við þá.
Breski flotinn skýrði frá því fyrr í mánuðinum að HMS Defender hefði sagt skilið við sóknarflota NATO á æfingu á Miðjarðarhafi til að „sinna eigin verkefnum“ á Svartahafi.
Æfingin Sea Breeze á að hefjast mánudaginn 28. júní. Alls 32 ríki í sex heimsálfum senda 5.000 hermenn, 32 skip, 40 flugvélar og 18 sérsveitir og kafara til þátttöku í henni.
Dmijtro Kule, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði atvikið vegna tundurspillisins sýna árásargirni og ögranir Rússa. Það þyrfti að styrkja samstarf Úkraínu og NATO-ríkjanna á Svartahafi.
Frásögn BBC
Fréttaritari breska ríkisútvarpsins BBC var um borð í HMS Defender þegar skipið sigldi fram hjá Krímskaga frá Odessa í Úkraínu á leið til hafnar í Georgíu að morgni 23. júní. Hann segist hafa séð rúmlega 20 flugvélar yfir skipinu og tvö rússnesk varðskip sem stundum hafi verið í aðeins 100 m fjarlægð frá tundurspillinum.
Hann segir að áhöfn tundurspillisins hafi verið kölluð út á varðstöðvar sínar þegar skipið nálgaðist Krímskaga. Vopnakerfi um borð í skipinu hafi verið hlaðin.
Með ferð skipsins innan 12 mílna frá Krímskaga hafi skipherrann viljað sannreyna frelsi þess til að athafna sig á alþjóðlegri siglingaleið án þess að vegið væri að öryggi þess og áhafnarinnar.
Fréttaritarinn sagði að í talstöð hefði mátt heyra óvinveittar viðvaranir og meðal annars orðin: „Ef þú breytir ekki um stefnu, skjótum við.“ Þá hafi heyrst skotdrunur í fjarlægð, langt utan þess að skotin næðu til skipsins.
Heimild: DW, BBC.