Home / Fréttir / Spenna milli ítalskra og franskra ráðamanna

Spenna milli ítalskra og franskra ráðamanna

 

Myndin er tekin í ítölsku Alpaþorpi skammt frá lokuðu frönsku landqamærunum. Á vegginn er letrað: Hvorki Salvini né Macron.
Myndin er tekin í ítölsku Alpaþorpi skammt frá lokuðu frönsku landqamærunum. Á vegginn er letrað: Hvorki Salvini né Macron.

Spenna hefur magnast í samskiptum ítalskra og franskra stjórnvalda undanfarið. Í danska blaðinu Jyllands-Posten var fjallað um deilur þjóðanna í leiðara laugardaginn 9. febrúar. Hann birtist hér í lauslegri þýðingu:

„Ástæðan er ekki sú að undanfarið hafi skort krísur í Evrópu en eitthvað virðist þó augljóslega hafa vantað að mati ítölsku ríkisstjórnarinnar svo að nú hefur hún í skyndi stofnað til smáátaka við nágrannaríkið Frakkland. Nýjasta í málinu er að franska ríkisstjórnin hefur kallað sendiherra sinn í Róm heim til skrafs og ráðagerða eins og það er orðað.

Þetta er mjög sérstakt ástand, næstum fordæmalaust frá því í síðari heimsstyrjöldinni. Ungverjar kölluðu þó fyrir einu og hálfu ári tímabundið sendiherra sinn heim frá Haag; ástæðan var sú að hollenski sendiherrann í Búdapest hafði verið einum of hreinskilinn í samtali um Orbán-ríkisstjórnina. Árið 1976 rufu Íslendingar í nokkra mánuði stjórnmálasamband við Breta vegna þorskastríðsins svonefnda um fiskveiðiréttindi í Norður-Atlantshafi. Fyrir utan þessi tilvik hafa tveir bandamenn – að þessu sinni aðilar að ESB og NATO – ekki rifist á þennan hátt.

Ábyrgðin á uppákomunni hvílir alfarið á Ítölum. Varaforsætisráðherrarnir tveir, Matteo Salvini frá hægriflokknum Bandalaginu og Luigi Di Maio frá vinstri popúlistunum í Fimm-stjörnu-hreyfingunni, hafa varla látið nokkurt tækifæri ónotað undanfarna mánuði til að ergja Emmanuel Macron, forseta Frakklands. Salvini hefur lýst forsetanum sem „hræðilegum“ og látið í ljós von um að „sem fyrst“ takist Frökkum að losa sig við hann. Di Maio fór til Frakklands og hitti frambjóðendur mótmælendanna í gulu vestunum í ESB-þingkosningunum í maí. Hann sagði vestin hafa getið af sér „nýja Evrópu“. Hann hefur einnig sakað Frakka um að hafa hrundið innflytjendakrísunni af stað með því að haga sér enn eins og nýlenduherrar í Afríku.

Margar fullyrðinganna eru rugl, um aðrar – eins og þá að ofbeldissinnaðir og ómarkvissir gulvestungar boði nýja Evrópu – má segja að þær séu ekki réttar. Stíllinn skiptir þó mestu máli, megi nota það orð. Almennt aðhyllast Ítalir La bella figura, sinn ljúfa lífsstíl, en Salvini og Di Maio haga sér næstum eins og götustrákar. Þeir gera þetta greinilega af taktískum ástæðum – þeir verða að halda suðunni uppi fram að ESB-kosningunum, einkum Fimm-stjörnu-hreyfingin sem hallast meira að beinu lýðræði en fulltrúalýðræði, það er vill frekar þjóðaratkvæðagreiðslur en þingræði. Þjóðaratkvæðagreiðslur var aðferð sem Napóleon notaði í Frakklandi og Mússólíni á Ítalíu, þeir beittu aðferðinni á slóttugan hátt til að ná fram vilja sínum, ekki síst á Ítalíu leiddi það að lokum til hörmunga. Orbán hefur gert tilraunir af svipuðu tagi.

Ágreiningur Ítala við Frakka kann að vera þess eðlis að afstaða ítölsku stjórnarinnar sé álíka skynsamleg og þeirrar frönsku. Ákvörðun Frakka um að loka landamærum sínum fyrir farandfólki frá Ítalíu getur verið til marks um það. Ítalir leita að öðru eftir áralanga stöðu sem móttökuland fyrir andófshópa. Þetta blað [Jyllands-Posten] er ekki heldur hrifið af Macron miðað við það sem hann reynist hafa að bjóða. Telji Salvini og Di Maio sig í raun betur setta með einstaklingum á borð við Marine Le Pen er það hins vegar hrollvekjandi. Hitt er líka óásættanlegt þegar þeir ganga fram fyrir skjöldu með hvatningu um að lýðræðislega kjörnum erlendum þjóðhöfðingja verði ýtt til hliðar.

Best er að stíga varlega til jarðar gagnvart innanlandsmálum nágrannaríkja, sé ekki um að ræða gróf mannréttindabrot eða brot gegn réttarríkinu. Útlendingar hafa látið viðkomandi ríkjum sjálfum eftir að glíma við átök á borð við þau sem hafa orðið í Katalóníu eða á Norður-Írlandi. Sama á einnig við um Frakkland. Hvað hefðu Ítalir annars sagt ef franska stjórnin krefðist nýrrar stjórnarforystu á Ítalíu?

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …