Home / Fréttir / Spenna milli Finna og Rússa vegna ferðabanns á þingforseta

Spenna milli Finna og Rússa vegna ferðabanns á þingforseta

Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands,
Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands,

Finnsk yfirvöld hafa hafnað beiðni um tímabundið afnám á ferðabanni ESB á forseta neðri deildar rússneska þingsins, Dúmunnar, Hefur neitunin leitt til spennu í samskiptum finnskra og rússneskra stjórnvalda. Var sendiherra Finnlands kallaður til fundar í utanríkisráðuneytinu í Moskvu. Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands, segir að ekki þurfi að undrast þessi viðbrögð.

Neitun Finna leiðir til þess að Sergei Narijskin þingforseti getur ekki setið þingmannafund aðildarríkja Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) sem haldinn er í Helsinki til að minnast 40 ára afmælis Helsinki-ráðstefnunnar þar sem Helskinki-lokaskjalið svonefnda var samþykkt árið 1975.

Timo Soini sagði við finnska ríkisútvarpið Yle fimmtudaginn 2. júlí að það væri jákvætt að rússneska utanríkisráðuneytið kallaði sendiherra Finna til fundar.

„Ég skil fyllilega að Rússar vilji heyra rökin fyrir ákvörðuninni beint frá Hannu Himanen sendiherra sem mun skýra þau,“ sagði ráðherrann. „Það er rétt af Rússum að segja sendiherranum skoðun sína milliliðalaust í stað þess að nota þriðja aðila sem millilið.“

Í finnska blaðinu Ilalehti var fimmtudaginn 2. júlí haft eftir Timo Soini utanríkisráðherra: „Finnar dansa ekki eftir pípu neins.“ Hann sagði við Yle að rangt væri að túlka afstöðu Finna sem yfirgang:

„Finnar sýna ekki yfirgang. Við höfum skoðað málið nákvæmlega, leitað samráðs og upplýsinga og síðan komist að neikvæðri niðurstöðu. Við vonum allir að aðrir opinberir fulltrúar Rússlands sæki fundinn.“

Forseti Dúmunnar er einn háttsettra rússneskra forystumanna sem sætt hafa ferðabanni af hálfu ESB vegna innlimunar Krímskaga í Rússland og stuðnings Rússa við aðskilnaðarsinna í Úkraínu. Fundur ÖSE-þingsins er 5. til 9. júlí í Helsinki.

Eftir að finnska utanríkisráðuneytið staðfesti að Sergei Narijskin fengi ekki að koma til Finnlands sagði Päivi Kaukoranta, yfirmaður lagaskrifstofu ráðuneytisins:

„Við sérstakar aðstæður má túlka reglurnar. Finnsk stjórnvöld hafa haft samráð við önnur ESB-ríki um málið og einnig sérfræðinga hjá ÖSE og ESB. Niðurstaðan er að ekki sé unnt að fella fundi ÖSE-þingsins í Finnlandi undir það sem kalla má sérstakar aðstæður,“

Af 15 manna sendinefnd Rússa eru sex á bannlista ESB. Eftir að finnska utanríkisráðuneytið birti úrskurð sinn ákváðu yfirvöld í Moskvu að hætta við þátttöku í ÖSE-þingfundinum.

TASS-fréttastofan vitnaði í Dmitri Peskov, talsmann Rússlandsforseta, miðvikudaginn 1. júlí. Hann sagði að afstaða finnskra stjórnvalda væri „forkastanleg og óviðunandi“. Þingforsetinn og ferðafélagar hans hefðu ætlað að sækja alþjóðafund en ekki ræða sérstaklega við finnsk stjórnvöld.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …