Home / Fréttir / Spenna magnast vegna lokunar á Kaliningrad

Spenna magnast vegna lokunar á Kaliningrad

Litháar hafa hindrað flutninga með járnbrautarlest á varningi á bannlista ESB til rússnesku hólmlendunnar Kaliningrad við Eystrasalt á landamærum Litháens og Póllands. Rússar segja þetta ögrandi óvinabragð. Ákafir stuðningsmenn Kremlverja í Moskvu segja þetta „beina árás á Rússa“.

Um er að ræða kol, járn, byggingarefni og tækjabúnað á leið til Kaliningrad, yfirráðasvæðis Rússa.

Forstöðumanni sendiráðs Litháens í Moskvu var tilkynnt að yrði banninu gegn flutningi varningsins um Litháen ekki aflétt innan skamms tíma áskildu Rússar sér rétt til að gæta eigin þjóðarhagsmuna.

Rússneska utanríkisráðuneytið vísaði til þess að ögrandi aðgerðir Litháa væru ótvírætt óvinveittar og brytu í bága við alþjóðlegar skuldbindingar frá 2002, einkum sameiginlega yfirlýsingu fulltrúa Rússlands og ESB um flutninga milli Kaliningrad og Rússlands.

Öldungadeildarþingmaðurinn Andreij Klimov, handgenginn Vladimir Pútin Rússlandsforseta, sagði þetta vera „beina árás á Rússland sem í raun neyðir okkur til að grípa tafarlaust til réttmætrar sjálfsvarnar“.

Formaður þingnefndar um gæslu rússnesks fullveldis hét því að Rússar mundu rjúfa bann Litháa „á hvaða hátt sem þeir veldu“.

Fréttaskýrendur minna á að bein árás Rússa á NATO-ríkið Litháen yrði stríðsyfirlýsing gegn bandalaginu og gæti leitt til heimsstyrjaldar.

Dmitríj Peskov, talsmaður Pútins, sagði um bann Litháa: „Þetta er algjörlega fordæmalaus ákvörðun. Hún brýtur gegn öllu. Við teljum hana ólöglega. Ástandið er meira en alvarlegt … við þurfum djúpa greiningu til að undirbúa svar okkar“.

Konstantin Kosatsjov, varaforseti öldungadeildar rússneska þingsins, fullyrti að Litháar hefðu alþjóðalög að engu með banni sínu á flutningi varningsins til Rússa.

Auðmaðurinn Mikhail Khodorkovskíj, andstæðingur Pútins, spáði að næsta skref Pútin yrði að mynda loftbrú yfir Litháen svo að rússneskar flugvélar gætu flogið milli Rússlands og Litháens. „Hvað gerir NATO þá?“ spurði hann.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …