Home / Fréttir / Spenna magnast milli Pakistana og Indverja í Kasmír-deilunni

Spenna magnast milli Pakistana og Indverja í Kasmír-deilunni

Pakistanar segja þetta brak úr indverskri orrustuþotu sem þeir grönduðu.
Pakistanar segja þetta brak úr indverskri orrustuþotu sem þeir grönduðu.

Stjórn Pakistans sagði miðvikudaginn 27. febrúar að her hennar hefði skotið niður tvær indverskar herþotur og tekið einn indverskan flugmann til fanga.

Indverjar sögðust hafa tapað einni orrustuþotu af MiG21-gerð og flugmaðurinn væri týndur.

Imran Khan, forsætisráðherra Pakistans, sagði að hvorugur aðili hefði efni á að misreikna sig í stöunni miðað við vopnabúnað sinn. Bæði ríkin ráða yfir kjarnorkuvopnum.

Ríkin deila um ráð yfir Kasmír-héraði eins og lýst er í pistli Kristins Valdimarssonar sem birtist hér fyrir neðan.

KASMÍR-DEILAN

Indland og Pakistan hafa lengi deilt um ýmis mál.  Í raun hafa deilur þeirra staðið frá því Indland fékk sjálfstæði frá Bretum árið 1947 en þá var landinu skipt í þessi ríki.  Sé sagan nokkuð einfölduð þá var ákveðið að Indland skyldi vera ríki hindúa en múslímar skyldu ráða í Pakistan.  Þetta leiddi til mikilla fólksflutninga á svæðinu sem gengu ekki átakalaust fyrir sig.  Er talið að af þeim u.þ.b. 14 milljónum manna sem lentu á vergangi hafi allt að tvær milljónir látið lífið á ferðalaginu eða hreinlega verið myrtar.  Eitt af þeim landsvæðum sem nýju ríkin tvö deildu hart um var Jammu – Kasmír, en svo hét svæðið fram til 1947.  Um er að ræða fjalllent svæði sem liggur á mörkum ríkjanna tveggja.  Furstinn í Kasmír, en Indland hafði ekki verið miðstýrt ríki undir stjórn Breta því þeir voru sáttir við að ýmis svæði í landinu nytu umtalsverðar sjálfstjórnar, vildi að Kasmír yrði sjálfstætt en þegar Pakistanar réðust inn í héraðið kölluðu yfirvöld eftir aðstoð indverska hersins sem leiddi til borgarastyrjaldar í Kasmír.  Sameinuðu þjóðirnar voru kallaðar til og stuðluðu samtökin að vopnahléi í Kasmír árið 1949.  Indland og Pakistan deildu þó áfram um yfirráð yfir héraðinu og friður komst ekki á.  Stríð hefur í tvígang brotist út milli ríkjanna vegna Kasmír.  Árið 1965 réðust Pakistanar á indverska hluta Kasmír í þeirri von að íbúar svæðisins hæfu uppreisn gegn indverskum stjórnvöldum.  Þeim varð ekki að ósk sinni og enduðu átökin með því að deiluaðilar ákváðu að snúa aftur til stöðva sinna. Sex árum síðar réðust Pakistanar aftur inn í Indland.  Þá var deiluefnið reyndar ekki Kasmír heldur sjálfstæðiskröfur Austur – Pakistan en við skiptingu Indlands árið 1947 hafði Pakistan verið skipt í tvo hluta.  Pakistanar töpuðu styrjöldinni og þegar samið var um frið milli ríkjanna hlaut Austur – Pakistan frelsi frá vesturhluta landsins og varð þá til ríkið Bangladess.  Friðarsamningurinn kvað einnig á um að Pakistan og Indland skyldu semja um varnalegan frið í Kasmír.  Það gekk hins vegar ekki eftir og deildu ríkin áfram um svæðið.  Þannig braust út önnur styrjöld milli ríkjanna um Kasmír árið 1999 eftir að Pakistanar reyndu að staðsetja hermenn í indverska hluta héraðsins.  Pakistanar náðu ekki markmiðum sínum í stríðinu og urðu eftir nokkra mánuði að draga herlið sitt til baka. Enginn friðarsamningur var gerður eftir átökin og hefur verið grunnt á því góða milli ríkjanna síðan.

47711966_7

Nú hefur Kasmírdeilan blossað upp enn á ný.  Ástæðan er sú að 14. febrúar síðastliðinn réðst sjálfsmorðsprengimaður á indverskar öryggissveitir við bæinn Lethpora, sem er í Pulwama héraði í indverska hluta Kasmír, með þeim afleiðingum að 40 indverskir löggæslumenn létu lífið.  Hryðjuverkasamtökin Jasih-e-Muhammed, sem útleggst sem her Múhameðs, hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Samtökin voru stofnuð af múslímaklerknum Mazood Azhar um aldamótin og segja sumir að pakistanska leyniþjónustan hafi hjálpað honum að skipuleggja þau.  Samtök hans eru hins vegar bönnuð þar í landi og segjast yfirvöld í landinu ekki hafa nein samskipti við þau enda hafi þau framið ýmis ódæði í Pakistan.  Þessu trúa Indverjar ekki og kenna Pakistan um árásina í Pulwama.  Deilur ríkjanna hafa magnast undanfarna daga og í byrjun vikunnar gerði indverski flugherinn árás á Balakot borg í Khyper – Pakhtunkhwa héraði í Pakistan en þar segja Indverjar að Her Múhameðs hafi bæki­stöðvar.  Indverjum og Pakistönum ber ekki saman um mannfall í árásinni.  Hafa fréttir m.a. borist af því að mágur Mazoods hafi fallið í Balakotbúðunum.  Hins vegar er ljóst að deilur ríkjanna um Kasmír halda áfram.  Það sem gerir deilu ríkjanna tveggja sérstaklega hættulega er að bæði ríkin eru kjarnorku­veldi.  Indland sprengdi sína fyrstu kjarnorkusprengju árið 1974 og Pakistan gerði slíkt hið sama árið 1998.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …