Home / Fréttir / Spenna magnast í samskiptum stjórnvalda Rússa og Bandaríkjamanna

Spenna magnast í samskiptum stjórnvalda Rússa og Bandaríkjamanna

Vladimír Pútin og Donald Trump.
Vladimír Pútin og Donald Trump.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði sunnudaginn 30. júlí að Bandaríkjastjórn yrði að fækka starfsmönnum sínum í sendiráði hennar í Moskvu og sendiskrifstofum annars staðar í Rússlandi um 755. Með þessu svaraði hann af hörku nýjum bandarískum lögum um hertar refsiaðgerðir gegn Rússum vegna gruns um afskipti þeirra af bandarísku forsetakosningabaráttunni í fyrra.

Í The Washington Post segir að brottrekstur svo margra starfsmanna bandaríska utanríkisráðuneytisins jafnist aðeins á við lokun bandarískra sendiskrifstofa í Rússlandi eftir byltingu kommúnista þar árið 1917.

Í samtali við Rossija-1 sjónvarpsstöðina sagði Pútin að hámarksfjöldi starfsmanna í bandarískum sendiskrifstofum, stjórnarerindreka og tæknilegra starfsmanna, yrði 455 eins og Rússa í Bandaríkjunum. Nú eru um 1.200 Bandaríkjamenn í þessum störfum í Rússlandi.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er nú á ferðalagi til Eistlands, Georgíu og Svartfjallalands. Þegar blaðamenn ræddu við Pence í Tallinn, höfuðborg Eistlands, sunnudaginn 30. júlí, var hann spurður hvort Trump mundi skrifa undir lagafrumvarpið gegn Rússum.

Pence sagði að forsetinn teldi óviðunandi að Rússar græfu undan stöðugleika, styddu óhæfar ríkisstjórnir og sköpuðu vandræði í Úkraínu. Forsetinn hefði tekið af öll tvímæli um að hann ætlaði að skrifa undir frumvarpið gegn Rússum. Bandaríkjastjórn vænti þess að Rússar sæju að sér.

Rússnesk stjórnvöld loka einnig aðgangi starfsmanna bandaríska utanríkisráðuneytisins að tveimur byggingum, vöruhúsi og setri í nágrenni Moskvu.

Barack Obama, þáv. Bandaríkjaforseti, ákvað í desember 2016 að reka 35 rússneska utanríkisráðuneytisstarfsmenn frá Bandaríkjunum eftir að Rússar voru sakaðir um tölvuárás á kosningastjórn Demókrataflokksins. Þá var Rússum einnig bannaður aðgangur að tveimur sveitasetrum á austurströnd Bandaríkjanna.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …