Home / Fréttir / Spenna magnast í austurhluta Úkraínu

Spenna magnast í austurhluta Úkraínu

 

Talið er að nú sé rétti tíminn til landhernaðar í austurhluta Úkraínu - landið er sæmilega þurrt. Eftir mánuð nýtast bryndrekarnir ekki.
Talið er að nú sé rétti tíminn til landhernaðar í austurhluta Úkraínu – landið er sæmilega þurrt. Eftir mánuð nýtast bryndrekarnir ekki.

Spennan í austurhluta Úkraínu og við Krímskaga er meiri um þessar mundir en hún hefur nokkru sinni verið frá því að Minsk-friðarsamkomulagið svonefnda var gert í febrúar 2015. Með samkomulaginu átti að binda enda á hernaðarátök á svæðinu en í raun hefur þeim aldrei lokið.

Rússinn Pavel Felgenheuer herfræðingur sem hefur lagt áherslu á greiningu á stöðunni milli Rússa og Úkraínumanna og er gagnrýninn á stefnu Kremlverja segir að mikil hætta sé á að til beinna og viðamikilla hernaðaraðgerða komi.

Hann segir að um þessar mundir séu rúmlega 100.000 rússneskir hermenn með mikinn vopnabúnað á æfingu skammt frá landamærum Úkraínu.

„Gerist ekki eitthvað er óskiljanlegt hvers vegna allt þetta er sett á svið. Herliðið sem hefur verið virkjað er mjög öflugt og vopnað réttum sprengjum, skotflaugum og tundurskeytum,“ segir hann.

Til viðbótar við her Rússa koma síðan aðskilnaðarsinnar í Austur-Úkraínu en tugþúsundir þeirra bera vopn og ráða yfir rússneskum herbúnaði auk þess sem talið er að þeir taki við fyrirmælum frá herstjórn Rússa.

Í ágúst beindist athygli meira en áður að framgöngu Rússa eftir að þeir tilkynntu að þeir hefðu handtekið útsendara frá Úkraínu á Krímskaga þar sem þeir hefðu verið að skipuleggja skemmdarverk gegn rússneskum stjórnvöldum sem ráða á Krím eftir að skaginn var innlimaður í Rússland vorið 2014.

„Það virðist augljóst að núverandi valdhafar í Kænugarði leita ekki leiða til að leysa vandamálin með samningum heldur grípa til hryðjuverka,“ sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseti vegna þessa atviks á Krím. Þótti tónninn í máli hans ófriðsamlegur.

Um sama leyti hægðu Rússar á Minsk-friðarferlinu sem á að tryggja vopnahlé í Donbas-héraði í austurhluta Úkraínu. Það hefur að nokkru tekist en á hinn bóginn hefur lítið miðað við að finna framtíðarlausn á pólitískum vettvangi.

Þrátt fyrir vopnahléið berast dag hvern fréttir um mannfall eða fjölda særðra á vígvellinum í Donbas þar sem hermenn stjórnvalda í Úkraínu annars vegar og vígamenn hliðhollir Rússum hins vegar hafa barist í tvo ár. Er talið að á annan tug þúsunda manna hafi fallið í átökunum eða vegna þeirra.

Rússar hafna allri gagnrýni í sinn garð séu þeir sakaðir um vopnaskak við Úkraínu. Þeir halda því fram að á bak við tjöldin leggi Bandaríkjamenn á ráðin um átök á svæðinu. Í Moskvu telja menn sig vita að stríð geti hafist innan fárra daga og Úkraínumenn muni hefja það að fyrirmælum frá Washington.

Sergei Markov er pólitískur álitsgjafi, handgenginn harðlínumönnum í Kreml. Hann sagði nýlega á Facebook-síðu sinni: „Unnið er að því að undirbúa „kosningabaráttustrið“ með það fyrir augum að tryggja Clinton sigur yfir Trump.“

Markov segir að rúmlega 100.000 hermenn séu í liði Úkraínustjórnar í Donbas og þeir séu þess albúnir að gera stórárás á aðskilnaðarsinna hliðholla Rússum.

Hvað sem öðru líður er nauðsynlegt að hafa í huga að þetta er ekki í fyrsta sinn á rúmum tveimur árum sem menn hrópa: „Úlfur! Úlfur!“ í Moskvu eða Kænugarði. Ráðamenn í báðum borgunum kunna að telja sér til hagsbóta að ýta undir ótta við átök.

Innan þriggja vikna verða þingkosningar i Rússlandi. Pútín og félagar hans vilja gjarnan ala á þjóðerniskennd Rússa í von um meira fylgi meðal þeirra við forsetann og flokk hans.

Í Kænugarði glíma stjórnvöld við margvíslega erfiðleika og efnahagsvanda og vilja örugglega draga athygli frá þeirri erfiðu og óvinsælu glímu með því að ala á stríðsótta.

Talið er að það hljóti að koma í ljós fyrr en síðar hvort um meira en hefðbundið vopnaskak sé að ræða. Sá sem hefur í hyggju að hefja landhernað á þessum slóðum verður að gera það á meðan landið er sæmilega þurrt og auðvelt er að komast úr einum stað í annan. Herfræðingar telja að enn sé svona mánuður til stefnu.

Heimild: Jyllands-Posten

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …