Home / Fréttir / Spenna magnast í Armeníu – forsætisráðherra sakaður um ofríki

Spenna magnast í Armeníu – forsætisráðherra sakaður um ofríki

 

Forsætisráðherra Armeníu strunsar á brott úr sjónvarpsviðtali.
Forsætisráðherra Armeníu strunsar á brott úr sjónvarpsviðtali.

Serzh Sargsyan, forsætisráðherra Armeníu, hafði ekki setið nema örstuttan tíma í beinni sjónvarpsútsendingu með Nikol Pashinian, aðgerðasinna og leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sunnudaginn 22. apríl þegar hann stóð á fætur og hvarf á braut.  

Eftir slit viðræðnanna kom til árekstra milli lögreglu og stjórnarandstæðinga á götum úti í höfuðborginni Yerevan. Fréttir bárust um að Pashinian hefði verið handtekinn en lögregla sagði þær rangar. 

Í 10 daga hafa andstæðingar Sargsyans efnt til mótmæla á götum úti til að mótmæla tilraun hans til að halda völdum. 

Sjónvarpssamtalið hófst á því að Pashinian sagði við forsætisráðherrann: „Ég kom hingað til að ræða afsögn þína.“ 

Sargsyan svaraði: „Þetta er ekki samtal, þetta er kúgun, ráð mitt til þín er að fara að lögum … annars verður þú kallaður til ábyrgðar.“ 

Pashinian: „Þú skilur ekki ástandið í Armeníu. Valdið er nú í höndum fólksins.“ 

Sargsyan: „Flokkur sem fékk 8% í [þing]kosningunum getur ekki talað fyrir hönd fólksins.“ 

Við svo búið stóð forsætisráðherrann upp og gekk á brott en til viðræðnanna var stofnað í fundarsal í Marriott-hótelinu í Yerevan. 

Lögregla sagði rangt að Pashinian hefði verið handtekinn eftir fundinn. Hann hefði hins vegar verið „fjarlægður með valdi“ frá mótmælaaðgerðunum. 

Serzh Sargsyan var forseti Armeníu þar til í mars á þessu ári. Áður en hann lét af embætti forseta hafði hann, árið 2015, beitt sér fyrir breytingu á stjórnarskránni sem breytti forsetaembættinu í formlegt þjóðhöfðingjaembætti en flutti efnislegt vald frá því til forsætisráðherrans, t.d. yfirstjórn hersins og öryggislögreglunnar. 

Serzh Sargsyan er sagður hallur undir ráðamenn í Moskvu en Armenía var áður sovéskt lýðveldi. Hann og flokkur hans hafa varið stjórnarskrárbreytingarnar með þeim orðum að þær styrki lýðræði í sessi og skerpi skil milli einstakra þátta ríkisvaldsins. 

Áður en Serzh Sargsyan hvarf úr forsetaembættinu vegna reglu um að hann mætti aðeins sitja þar í tvö kjörtímabil sagðist hann ekki hafa hug á að verða forsætisráðherra.  

Kosið var til þings Armeníu 1. apríl 2018 og er flokkur Sargsyan stærsti flokkurinn á þingi. Andstæðingar hans saka flokkinn um kosningasvik. 

Serzh Sargsyan er fyrrverandi herforingi. Hann gegndi embætti forsætisráðherra 2007-2008 áður en hann náði fyrst kjöri sem forseti. Hann sat 10 ár í því embætti. Þriðjudaginn 17. apríl varð hann forsætisráðherra með stuðningi þingflokks síns. 

Bent er á að í valdabrölti sínu fari Sargsyan að fordæmi Vladimirs Pútins sem varð forsætisráðherra þegar hann mátti ekki sitja lengur sem forseti. 

Sargsyan sætir gagnrýni fyrir að halda illa á málum Armena gagnvart nágrannaríkjunum Tyrklandi og Azerbaijan auk þess sem efnahagur þjóðarinnar versnar. 

Pashinian er blaðamaður og þingmaður. Árið 2008 var hann handtekinn fyrir mótmæli sín gegn Sargsyan. Hann lýsir baráttu sinni nú sem „flauels-byltingu“ í anda friðsamlegra mótmæla sem bundu enda á vald kommúnista í Tékkóslóvakíu árið 1989. 

Allt að 50.000 manns hafa undanfarna 10 daga tekið þátt í mótmælum í borgunum Yerevan, Gyumri, Ararat og Artashat. Lögreglan handtók 84 síðdegis laugardaginn 21. apríl og meira en 230 föstudaginn 20. apríl. 

Íbúar Armeníu eru um 2,9 milljónir. 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …