Home / Fréttir / Spenna innan NATO vegna hernaðar Tyrkja gegn Kúrdum

Spenna innan NATO vegna hernaðar Tyrkja gegn Kúrdum

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, heilsar heiðursverði hermanna.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, heilsar heiðursverði hermanna.

Sókn tyrkneska hersins gegn hersveitum Kúrda í Afrin-héraði í norðurhluta Sýrlands skapar vanda innan NATO. Bandaríkjastjórn er hliðholl Kúrdum. Líkur eru á að spenna magnist milli aðildarríkja NATO vegna málsins. 

Rose Gottemoeller, vara-framkvæmdastjóri NATO, var í Ankara, höfuðborg Tyrklands, mánudaginn 22. janúar. Heimsókn hennar var ákveðin með löngum fyrirvara án tengsla við það sem nú er að gerast á vígvellinum í Afrin þar sem Kúrdar hafa búið um sig á afmörkuðu svæði. Athyglin sem heimsóknin vakti var meiri en ella hefði orðið vegna þess að verði átök milli herja Tyrkja og Bandaríkjanna verða þau á milli tveggja öflugustu herjanna innan NATO. 

Stjórnvöld í Ankara segja að þau vilji hreinsa svæðið næst landamærum sínum í Sýrlandi af öllum hermönnum Kúrda. Hersveitir þeirra hafi áratugum saman barist gegn tyrkneska hernum. Bandaríkjamenn líta hins vegar á Kúrda sem helstu bandamenn sína í baráttunni við hryðjuverkamenn í Sýrlandi. 

Gottemoeller ræddi við tyrkneska embættismenn sem fullvissuðu hana um að sóknin inn í Afrin-hérað yrði „stutt“. Í Brussel lögðum embættismenn NATO áherslu á að vara-framkvæmdastjórinn væri ekki í Ankara vegna vaxandi spennu milli Tyrkja og Bandaríkjamanna og henni væri ekki ætlað að sinna neinu sáttahlutverki vegna deilunnar.  

Meðal þess sem Gottemoeller gerði í Ankara var að leggja blómsveig við grafhýsi Mustafa Kemals Atatürks, stofnanda nútíma Tyrklands. 

Margir herfræðingar segja að átökin í Afrin séu alvarlegri en við blasi. Greinendur leynilegra upplýsinga segja að líta beri framgöngu Tyrkja í því ljósi að þeir hafi gengið til samstarfs við Rússa og Írani sem vilji setja skorður við bandarískum áhrifum í Sýrlandi. Bandaríkjamenn verði annað hvort að hörfa eða takast á við Tyrki. 

 

Heimild: DW 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …