
Herþota undir merkjum NATO flaug miðvikudaginn 21. júní í áttina að flugvél sem flutti Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, yfir Eystrasalt. Rússneska fréttastofan Interfax segir að rússnesk herþota hafi snúist flugvél ráðherrans til varnar.
Fréttastofan segir einnig að fylgdarvélin, Sukhoi SU-27, hafi sýnt að hún væri vopnuð með því að vagga vængjum sínum. Þá hafði NATO-vélin horfið á brott.
Frá NATO barst yfirlýsing um að flug herþotunnar undir merkjum bandalagsins hefði verið „hefðbundið“ og flugmaðurinn hefði haldið „vél sinni allan tíma í öruggri fjarlægð“ og síðan haldið á brott.
Talsmaður NATO segir að ákveðið hafi verið að hafa náið eftirlit með öllu flugi yfir Eystrasalti undanfarna daga vegna „óvenju margra rússneskra hervéla á flugi“ á þessum slóðum.
Shoigu flaug miðvikudaginn 21. júní til rússnesku hólmlendunnar Kaliningrad milli Litháens og Póllands þar sem Rússa ráða yfir miklum herafla. Hitti ráðherrann háttsetta foringja í hernum þar.
Á fundinum sagði hann að „ástandið við vestur landamæri Rússlands versnaði,“ sagði á vefsíðu varnarmálaráðuneytisins. Þetta mætti rekja til aukinna „hernaðarumsvifa NATO-landa í Austur-Evrópu“.
Heræfingar voru á vegum NATO í Póllandi við landamæri Litháens, skammt frá Kaliningrad, um síðustu helgi.
Rússneski sendiherrann í Stokkhólmi var kallaður í sænska utanríkisráðuneytið miðvikudaginn 21. júní eftir að rússneks Sukhoi-orrustuþota flaug óvenju nærri sænskri eftirlitsflugvél yfir Eystrasalti.
„Framferði Rússa var óviðunandi,“ sagði Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svía, við sænsku TT-fréttastofuna. Rússar ykju hættu á „alvarlegu atviki“ með framferði sínu.
Sænski herinn sagði þetta atvik hafa gerst mánudaginn 19. júní. Sama dag tilkynnti Bandaríkjaher að rússnesk orrustuþota hefði flogið „óvarlega“ í veg fyrir bandaríska eftirlitsflugvél yfir Eystrasalti.
Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði hins vegar að flugmaður rússneskrar orrustuvélar hefði tekið til sinna ráða eftir að bandarísk eftirlitsflugvé „beygði ögrandi“ í áttina að honum og síðan önnur bandarísk eftirlitsflugvél komið á sama svæði 10 mínútum síðar.
Rússneskar orrustuþotur fljúga reglulega í veg fyrir vélar til að átta sig á þjóðerni þeirra og gerð þegar þeim er flogið yfir Eystrasalt og í nágrenni Kaliningrad. Yfirleitt virða flugmenn vélanna viðurkenndar öryggisreglur.
Yfirvöld í Stokkhólmi og Washington segja í atvikum undanfarinna daga hafi þessar öryggisreglur verið brotnar.